05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7434 í B-deild Alþingistíðinda. (5481)

491. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 49 frá 1985 var ákveðið að koma á fót í bankakerfinu sérstökum húsnæðissparnaðarreikningum til að auðvelda ungu fólki að spara og um leið á hagkvæman máta að safna fyrir útborgun í húsnæði. Var ungu fólki sem nýta vildi sér þetta sparnaðarform heitið skattaafslætti og bestu ávöxtunarkjörum hjá viðskiptabanka þess eða sparisjóði. Brá svo við að þegar ákvörðun var tekin um staðgreiðslu opinberra gjalda gleymdist að geta þess í lögunum hvernig færi með þessa reikninga og þann skattafslátt sem í lögunum er kveðið á um að sá skuli njóta sem leggur inn á þessa reikninga. Af þessum sökum hefur skapast mikil réttaróvissa og því er fsp. sú sem er á þskj. 841 sett fram til hæstv. fjmrh. og hann spurður að því til hvaða ráðstafana hann ætli að grípa til að eyða þeirri óvissu sem er meðal eigenda þessara reikninga og ekki síst í bankakerfinu.

Á það skal bent að um þessa reikninga var rætt í milliþinganefnd sem endurskoðaði lögin um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sú nefnd gerði tillögu til fjmrh. um hvernig hentugast væri að leysa þessi mál og átti ég raunar von á því að eftir tillögunum yrði farið. Á þeim tillögum bólar ekki enn þá og fyrirsjáanlegt er að þær verða ekki lagðar fram né annað í þessu máli rétt fyrir lok þessa þings.

Sú staða sem komin er upp snertir ekki stóran hóp manna, en þetta fólk á sinn rétt eins og aðrir og á kröfu til þess að leyst verði úr þessu máli sem fyrst. Það liggur alveg ljóst fyrir að grundvöllur þessara húsnæðissparnaðarreikninga er brostinn þegar skattaafslátturinn hefur verið afnuminn.

Fsp. sem ég legg fyrir fjmrh. er í þremur liðum og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hefur verið athuguð staða þess fólks sem lagt hefur inn á húsnæðissparnaðarreikninga samkvæmt lögum nr. 49 frá 26. júní 1985 eftir breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt á sl. ári?

2. Hvernig fer með skattafslátt sem mælt er fyrir um í 1. gr. nefndra laga?

3. Hvað hyggst ráðherra gera til að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkir hjá almenningi og í bankakerfinu gagnvart þessum reikningum?"