05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7435 í B-deild Alþingistíðinda. (5482)

491. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Spurningarnar eru þríþættar og vegna efnis máls hyggst ég svara þeim í tvennu lagi. Fyrst var spurt: „Hefur verið athuguð staða þess fólks sem lagt hefur inn á húsnæðissparnaðarreikninga skv. lögum nr. 49 frá 26. júní 1985 eftir breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt á sl. ári?" Og í öðru lagi: „Hvernig fer með skattafslátt sem mælt er fyrir um í 1. gr. nefndra laga?"

Svarið við þessu er að það hefur vissulega verið athugað. Af hálfu fjmrh. var lagt fram frv. til l. um afnám húsnæðissparnaðarreikninga í ríkisstjórn og til kynningar hjá stjórnarflokkum, en um það frv. tókst ekki samstaða. Það er rétt að gefa hér nokkuð almennar upplýsingar um málið.

Á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna hefur þátttaka almennings í þessu sparnaðarformi ekki orðið sú sem vænst var þrátt fyrir skattalegar ívilnanir því að á árinu 1985 stofnuðu aðeins 98 einstaklingar húsnæðissparnaðarreikninga en 134 á árinu 1986. Heildarsparnaður á árinu 1985 var 4 138 284 kr., en á árinu 1986 10 947 116 kr.

Eins og fyrr sagði var slíkt frv. undirbúið og lagt fram af hálfu fjmrn. Í grg. þess sagði: „Hinn 1. jan. 1988 verður tekin upp staðgreiðsla opinberra gjalda hér á landi, en ljóst er að sá viðbótarpersónuafsláttur sem veittur er skv. lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fellur ekki að staðgreiðslukerfi því er upp verður tekið“, sbr, það sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda. Með tilliti til lítillar þátttöku almennings í sparnaði með húsnæðissparnaðarreikningum svo og þess að þetta sparnaðarform fellur ekki að staðgreiðslukerfi opinberra gjalda er lagt til að húsnæðissparnaðarreikningar verði lagðir niður. En þegar spurt er hvernig fer með skattafslátt sem mælt er fyrir um í 1. gr. nefndra laga gerði þetta frv. ráð fyrir eftirfarandi:

Til þess að ekki verði gengið á rétt þeirra fáu sem nýtt hafa sér skattalega ívilnun var lagt til að þeir sem eiga innistæðu á bundnum húsnæðissparnaðarreikningi fái frjálsa ráðstöfun þeirra og að skattalegar ívilnanir vegna húsnæðissparnaðarreiknings haldist óbreyttar, þ.e. ekki verði um endurreikning skatta að ræða á álagningarárunum 1986 og 1987.

Þá er spurt: „Hvað hyggst ráðherra gera til að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkir hjá almenningi og í bankakerfinu gagnvart þessum reikningum?"

Svar: Samkvæmt þessu er ljóst að kveðið er á um það í lögum að veita skuli skattafslátt vegna innleggs á húsnæðissparnaðarreikninga. Hins vegar hefur verið fellt niður ákvæði sem kvað á um hvernig þessi skattafsláttur skuli veittur. Ef ekki verða gerðar breytingar á þessum lögum á yfirstandandi þingi þar sem tekin verður afstaða til þess hvort leggja eigi þetta sparnaðarform niður eða ekki mun fjmrn. gefa út reglugerð með heimild í 8. gr. laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, þar sem kveðið verður á um hvernig skattafsláttur vegna innleggs á húsnæðissparnaðarreikninga verði veittur á þessu ári.