12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti.

„Þægilegu mennirnir frá Ameríku koma þegar líður nær miðnætti, þeir eru hættir að skilja eftir yfirhafnirnar sínar í fordyrinu, en gánga beint inntil bóndans; og ef þeir rekast á vinnuþý í anddyrinu klappa þeir okkur á bakið og taka upp sígarettur og jórturleður. Þeir stóðu vanalega stutt við. Þegar þeir voru farnir kom forsætisráðherrann einsog áður, síðan einhverjir fleiri ráðherrar, mæðuveikistjórinn, nokkrir alþíngismenn, heildsalar og dómarar, blýgrái sorglegi maðurinn sem gaf út blað um að við yrðum að selja landið, biskuparnir, lýsisherslustjórinn. Þeir sátu oft á fundum leingi nætur, ræddust við hljóðlega og fóru furðu ódrukknir.“

Þetta er tilvitnun í bók sem skrifuð var á árunum 1946 og 1947 og ber heitið Atómstöðin. Útkoma þessarar bókar olli miklu fjaðrafoki í íslensku samfélagi hjá góðborgurum þessa lands og hægri pressunni í landinu. Baksvið hennar var Keflavíkursamningurinn sem gerður var á Alþingi 1946 um haustið og olli stjórnarslitum þar sem sósíalistar gengu út úr ríkisstjórn. En það var aðeins upphafið. Á eftir kom innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið og koma bandaríska hersins hér með leynd á vormorgni 7. maí 1951.

Það sem þá var sagt um þessi mál af vinstri mönnum á Íslandi og andstæðingum herstöðvanna var stimplað sem kommúnistaáróður, ómaklegar árásir á þáverandi valdamenn í landinu. En nú 40 árum síðar eru dregin fram í dagsljósið gögn erlendis sem bera þess ljós vitni að það sem sagt var af andstæðingum herstöðvanna á Íslandi á þessum árum var ekki orðum aukið. Þvert á móti, þar var ekki allur sannleikur sagður.

Við höfum orðið áheyrendur frásagna af niðurstöðum norsks sagnfræðings, Dag Tangens, sem hefur stundað rannsóknir á samskiptum bandarískra stjórnvalda og bandarískrar leyniþjónustu við stjórnmálamenn í Noregi og alveg sérstaklega norsku verkalýðshreyfinguna. Fyrir tilviljun rakst sagnfræðingurinn á gögn, innan um norsk skjöl úr safni vestur í Bandaríkjunum, Truman-safninu, sem snertu Ísland og íslenska sögu og það eru þau sem við höfum fengið fréttir af.

Þetta voru aðeins fáein blöð sem þarna lágu og sagnfræðingurinn leitaði eftir því að fá frekari gögn úr söfnum, þar á meðal úr Eisenhower-safninu, en honum var neitað og hann fullyrðir að skjöl varðandi Ísland og íslensk utanríkismál séu harðlega læst inni, að miklu erfiðara sé að nálgast þau en skjöl varðandi hliðstæð mál sem snerta aðrar þjóðir. Hvers vegna? Hann hefur svarað því að ástæðan hljóti annaðhvort að vera að Ísland sé metið hafa miklu meiri hernaðarlega þýðingu fyrir Bandaríkin en t.d. Noregur eða þá, sem hann hefur einnig vikið að, að þrýstingur hafi komið utan frá um það að halda þessum gögnum undir lás og slá.

Ég nefni það, herra forseti, að Bandaríkin búa við lög sem skylda stjórnvöld þarlend til þess að skila inn gögnum eftir 30 ár og til þess að birta gögn varðandi utanríkismál landsins og samskipti við aðrar þjóðir að 35 árum liðnum. Í því samhengi komu út í byrjun þessa árs gögn sem snerta samskipti íslenskra stjórnvalda, alveg sérstaklega íslenska utanríkisráðuneytisins, við bandarísk stjórnvöld á árinu 1951 í aðdraganda þess að hingað kom bandarískt herlið. Þessi gögn hef ég fengið vestan um haf. Þau voru til umræðu hér í dagblöðum, að vísu aðeins í einu vikublaði sérstaklega í fyrravetur en það þýddi hluta af þessum gögnum, það var Helgarpósturinn. Þessi gögn eru aðgengileg fréttamönnum og þau bera ekki íslenskum valdamönnum á þessum tíma gott vitni fremur en skjölin sem verið er að draga fram upp úr safni norsks sagnfræðings úti í Noregi. Þarna er dregin upp dökk mynd, sérstaklega af íslensku utanríkisþjónustunni og utanríkisráðherra þessa tíma, síðar formanni Sjálfstfl., Bjarna heitnum Benediktssyni.

Í umræðu um skýrslu utanrrh. í fyrra vék ég að þessu máli og skoraði á hæstv. þáv. utanrrh. að sjá til þess að gögn úr íslenska utanrrn. sem tengjast þessu tímabili yrðu dregin fram og birt, yrðu öllum opin. Ráðherrann svaraði þessari ósk minni með svofelldum orðum í Sþ. 11. mars sl.:

„Þá vék þingmaðurinn að því sem hefur verið að birtast að undanförnu, gögnum frá tímanum 1951 varðandi hervarnarsamninginn og það sem þá var að gerast. Vissulega þurfa að koma í ljós, þegar sagan verður skrifuð, þau hin réttu gögn í þessum efnum og ég efast ekkert um að þegar að því verður hugað í utanrrn. á þeim tíma sem það er talið eðlilegt og skynsamlegt verði þau gögn birt.“

Þetta er hluti af svari ráðherrans, ég ætla ekki að lesa það til enda.

Ég gekk eftir þessu í utanrmn. sl. vor, fékk þau svör að mál þetta væri í athugun. Nú spyr ég hæstv. núv. utanrrh.: Mun hæstv. ráðherra Steingrímur Hermannsson tryggja að gögn íslenska utanrrn. varðandi íslensk öryggismál, meðal annars á þessu tímabili, 1946–1951, verði dregin fram í dagsljósið og gerð öllum aðgengileg? Hvenær er þess að vænta að svo geti orðið? Mun ráðherrann einnig beita sér fyrir því að gögn úr bandarískum söfnum, sem snerta samskipti Íslands og Bandaríkjanna á þessu tímabili, verði kölluð heim, að eftir því verði óskað að þau verði afhent Íslendingum og íslenskum stjórnvöldum svo unnt sé að leiða í ljós sannleikann í þessum málum og hreinsa sumpart æru þeirra manna sem liggja undir aðdróttunum úr þessum erlendu gögnum þar sem verið er að skrifa Íslandssöguna vestan hafs?