12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Sú umræða sem er hafin um birtingu skjala löngu liðinna tíma er á margan hátt merkileg. Við sem höfum litið til baka og hugað að sögunni vitum að þetta tímabil var mjög umdeilt. Það voru mjög harðar umræður hér og þetta var mjög erfitt tímabil í íslenskri sögu. Skjöl erlendis munu sjálfsagt verða birt og ég vil taka undir það sem hæstv. utanrrh. segir að við getum ekki alveg treyst öllu því sem erlendir sendimenn skrifa um okkur og hvernig þeir meta okkar menn. Og ég fullyrði að þeir menn, sem eru reyndar flestir látnir, sem stóðu að þessum hlutum á sinni tíð fyrir okkur; voru einvörðungu með hagsmuni Íslands í huga. Það hefur sýnt sig að sú stefna sem þeir mótuðu hefur skipt sköpum fyrir okkur. Við höfum búið við frið síðan, við höfum búið í góðri samvinnu við Vesturlönd og við höfum tryggt okkur það að okkar mál eru vel komin og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af okkar öryggi eins og margar aðrar þjóðir hafa þurft.

Stofnun Atlantshafsbandalagsins á sinni tíð og koma hersins hefur rennt stoðum undir mesta blómaskeið Íslandssögunnar, bæði efnahagslega og á margan hátt menningarlega. Ég held að það að fara að dæma menn eða annað slíkt sé afskaplega hæpið.

Ég hef látið mér detta í hug að það væri fróðlegt að fá skýrslur um svipað efni frá Sovétríkjunum. Það yrði kannski eitthvað annað mat þar.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega undirstrika það að við förum varlega í sakirnar og látum ekki tilfinningarnar ráða heldur það sem raunverulega skiptir máli.