12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir að það er eðlilegt að settar verði reglur um birtingu skjala eins og þeirra sem hér eru til umræðu. Og skal ég líka staðfesta að það hefur verið rætt í utanrmn. eins og einn af hv. ræðumönnum gat um. Ég veit að að þessu máli verður unnið. Hvort það á síðan að afgreiða á lokuðum fundi í sameinuðu þingi eða annars staðar, t.d. í ríkisstjórn, þingflokkum og þá utanrmn., sem eðlilegt er að fjalli um slík mál lögum samkvæmt, skal ég ekki leggja á dóm. Það er ekki meginatriðið. En reglur þarf að setja um þetta. Ég get heldur ekki metið það hér og nú hverjar þær reglur eigi að vera, hve snemma beri að birta slík skjöl.

Þar að auki kveð ég mér hljóðs til að vekja á því athygli að þegar þessi skjöl frá Noregi, sem eru talin svo merkileg, komu hér fyrst til umræðu er farið að drótta nánast landráðum að látnum manni, Stefáni Jóhanni Stefánssyni, og síðan er nefnt nafn Bjarna Benediktssonar héðan úr þessum ræðustól og sagt að dregin hafi verið af honum dökk mynd. Að vísu vitnað til þess að það sé gert í Bandaríkjunum. En nafn hans skal dregið inn í umræðuna. Hins vegar, af eðlilegum ástæðum, er nafn Eysteins Jónssonar ekki nefnt. Hann er á lífi sem betur fer, getur þess vegna sagt frá því hvað gerðist á þessum árum því það voru einmitt þessir þrír menn sem báru hita og þunga baráttunnar. Þótt ég væri þá ungur að árum fylgdist ég ærið náið með því sem var að gerast um þetta leyti og þá fyrst og fremst með kynnum af Bjarna Benediktssyni og ég mótmæli því að það sé verið að drótta að honum sérstaklega og hverjum þessara manna sem er einhverju óheiðarlegu eða óheilbrigðu í þessum störfum. Það er ósæmandi.

Auðvitað verður þessi saga skrifuð. Og það er verið að skrifa sögu. Þór Whitehead skrifaði t.d. þá merku bók Ófriður í aðsigi, fyrstu bók sína í ritsafninu. Þar fáum við rétta mynd af leiðtogum íslensku þjóðarinnar á árunum fyrir stríð, rétta mynd auðvitað af mönnum eins og Hermanni Jónassyni, Eysteini Jónssyni og öðrum þeim sem þá stóðu á verði gegn nasismanum þótt við hefðum enga hugmynd um hvernig þeir fóru að því. Auðvitað fáum við þessa mynd. Og enginn þessara manna hefur nokkurn tímann svikið hinn íslenska málstað. Þeir hafa allir staðið á verði. Allt umtal um eitthvað annað er ósæmandi.