12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Í umræðum um skýrslu utanrrh. Matthíasar Á. Mathiesens á síðasta þingi lagði ég ríka áherslu á að menn tækju sig nú til og settu reglur um birtingu skjala íslenskra stjórnvalda og gerðu gangskör að því að taka upp úr kössunum í Stjórnarráði Íslands til þess að Íslandssagan væri ekki skrifuð erlendis eins og verið er að gera með birtingu heimilda án þess að hafa til staðar íslensk samtímagögn frá viðkomandi tímum. Það hefur ekkert gerst í þessu máli svo að ég viti frá því að ég bar þessa kröfu fram 11. mars sl. Og ég ætla að vona sannarlega að þessi umræða hér leiði til þess að það verði nú tekið til hendinni um að gera aðgengileg þau skjöl sem þarna ræðir um, um að setja reglur og setja lög á Alþingi Íslendinga um birtingu á gögnum og heimildum stjórnvalda. Auðvitað á það að vera verk Alþingis að móta slíkar heimildir, en síst er ég á móti því að stjórnvöld og ríkisstjórn á hverjum tíma hjálpi til um þau efni.

Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir undirtektir hans við þetta efni, en ég bendi hæstv. ráðherra á að hann hefur ekki mikinn tíma til að láta til skarar skríða, til að standa við þær yfirlýsingar sem hann í rauninni gaf hér vegna þess að við þurfum á því að halda við athugun þessara mála að sem fyllstar heimildir liggi fyrir og að hægt sé að draga sannleikann fram að svo miklu leyti sem unnt er, litið til baka.

Ég minni á að í gildi eru lög um Þjóðskjalasafn Íslands og þau hafa nýlega verið endurskoðuð, á árinu 1985: Samkvæmt þeim lögum ber ráðuneytum m.a. að afhenda safninu að ákveðnum tíma liðnum gögn sín, gera þau aðgengileg og skrá þau eftir þeim kröfum sem safnið setur. Þessu safni hafa ekki verið búin þau skilyrði sem skylt ætti að vera fyrir söguþjóð. Ég bar fram fsp. hér í Sþ. á síðasta Alþingi til fjmrh. og menntmrh., en þeirri fsp. fékkst ekki svarað. Það var hæstv. núv. forsrh. sem ekki lagði til sinn hluta í svari við þeirri fsp. sem sneri að aðbúnaði fyrir Þjóðskjalasafn Íslands. Hvað veldur því að menn búa ekki þessu safni þau skilyrði sem skylt er?

Ég vil segja um þá umræðu sem hér hefur farið fram að hún er út af fyrir sig efni í skáldsögu. Hún leiðir margt kynlegt í ljós í viðhorfum til sögulegrar skoðunar. Hún leiðir í ljós að menn rísa hér upp upptendraðir og fara af þessu tilefni að verja ákveðna hluti úr fortíðinni sem við erum ekki í aðstöðu til að leggja endanlegt mat á vegna þess að okkur skortir heimildir. Ég vil að heimildir séu dregnar fram um hvað eina sem snertir samskipti Íslands við aðrar þjóðir, hvort sem það er í austri eða vestri. En vissulega vill það svo til að samskipti Íslands sem leitt hafa til afdrifaríkra ákvarðana snertu Bandaríkin alveg sérstaklega og það er þess vegna sem þessi umræða er nánast inni í kvikunni enn á núlifandi stjórnmálamönnum.

Ég get ekki tekið undir það að mál af þessu tagi þurfi að ræða á lokuðum fundum Alþingis. Hér á ekkert að vera að fela. Við þurfum á því að halda að umræða sem þessi fari fram fyrir opnum tjöldum. Við þurfum á því að halda að það sé hægt að þróa athugun íslenskra utanríkismála í ljósi sögunnar. Það skortir mjög mikið á að það sé kleift.

Ég er mjög undrandi á ummælum eins og komu hér frá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Ég held að hann ætti nú að fara í læri hjá honum föður sínum, hæstv. fjmrh., og láta hann segja sér frá því hvernig samskiptin voru við þá menn sem eru til umræðu í þessu samhengi, hvernig samskiptin voru innan Alþfl. sem hæstv. fjmrh. er formaður fyrir. Ég held að hann gæti ýmislegt af því lært, og hv. fyrrv. þm. Hannibal Valdimarsson hefur látið til sín heyra í blöðum um þetta efni síðustu daga. (Forsrh.: Hv. þm. gæti nú líka lært af Hannibal.) Ég gæti eflaust lært af Hannibal. Ég er alveg reiðubúinn til þess líka að gera það og ég er reiðubúinn að taka þátt í opinni umræðu hvar sem er og hvenær sem er um þessi efni.

Herra forseti. Ég vænti þess að ég hafi viðlíka langan ræðutíma og hæstv. forsrh. (Forseti: Hv. ræðumaður hefur þegar talað eins lengi og forsrh.) Ég hef ekki mælt það, virðulegur forseti. Ég skal senn ljúka máli mínu. En ég verð að segja að það er nokkuð sérkennilegt mat sem menn eru að leggja á síðustu áratugi og staðhæfa það hér að blómgun í íslensku efnahagslífi og íslensku menningarlífi, friður og öryggi sé allt því að þakka hvaða ákvarðanir voru teknar í íslenskum utanríkismálum fyrir 3–4 áratugum. Það er mikil einföldun og mikill barnaskapur sem fram kemur í slíkum ummælum. Ég ætla ekki að gera þau að umtalsefni hér. Til þess er ekki tími.

Ég vænti þess að þessi umræða verði til þess að . gögn verði leidd fram til þess að unnt sé að leggja hlutlægt mat á atburði liðinnar tíðar og eftir atvikum að hreinsa æru þeirra manna sem verið er að bera þungum sökum (EKJ: Hver er að því?) af erlendum sendimönnum. Ég er að gera kröfu um það, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, að.það verði mögulegt að leggja mat á þessa hluti í ljósi heimilda.

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu.