12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

83. mál, nýting á kartöflum

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Þessi till. vekur athygli á því ófremdarástandi sem ríkt hefur í málefnum kartöfluframleiðenda sl. ár. Góð uppskera á þessum árum hefur enn aukið vandann sökum skipulagsleysis. Undir einokun Grænmetisverslunarinnar voru þessi mál komin í mikið óefni, en með setningu búvörulaganna tók við af einokuninni taumlaust frelsi og það hefur síður en svo leitt til góðs heldur enn aukið á ófarnaðinn. Það er hagsmunamál framleiðenda og neytenda að komið verði skipulagi á þessa framleiðslu. Til þess þarf margar samræmdar ráðstafanir. Það getur þurft að koma til einhver niðurgreiðsla af hálfu ríkisvaldsins til að halda kartöflunum innan kerfisins. Það þarf að sjá um að nýta umframframleiðsluna til að framleiða íslenska vöru úr þeim. Þessi till. fjallar um þessi mál og ég vona, eins og aðrir ræðumenn sem hafa beint máli sínu til hæstv. ríkisstjórnar, að hún taki þetta mál til alvarlegrar athugunar.