10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7949 í B-deild Alþingistíðinda. (6123)

455. mál, sparisjóðir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég er vanbúinn að ræða þetta frv. efnislega þar sem mér var ekki kunnugt um það fyrr en nú í kvöld að hugmyndin væri að afgreiða frv. fyrir þinglok, en um leið og ég frétti þetta hafði ég samband við formann Sambands sparisjóða og framkvæmdastjóra Sambands sparisjóða og hef boðað þá á fund í fjh.- og viðskn. kl. 9 í fyrramálið og mun þá athuga einstök efnisatriði frv. Hins vegar hefði verið gott við 1. umr. málsins að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hvernig beri að skilja 2. gr. frv. Ég tek skýrt fram varðandi 3. og 4. gr. að 3. og 4. gr. frv. eru alveg sjálfsagðar og ég geri ráð fyrir því að víðast hvar séu vinnubrögðin með þeim hætti sem hér er lagt til og er af minni hálfu enginn ágreiningur um 3. eða 4. gr., en varðandi 2. gr. vil ég spyrja hæstv. viðskrh. hvort hugmyndin með þeirri breytingu sé sú að sama ástand skapist og var áður en ákvæðið um sýslunefndir var sett inn í sparisjóðalögin, það sé nauðsynlegt að það komi fram m.ö.o. hvað er átt við með orðunum „hlutaðeigandi sveitarstjórnir tilnefni einn mann“ eins og stendur í 2. gr. Auk þess hygg ég að lög og reglur um sparisjóði séu með mismunandi hætti þó maður geri ekki annað en minna á sparisjóðinn í Reykjavík, sparisjóð Mýramanna og sparisjóð Hríseyinga svo að ég taki þrjá sparisjóði þar sem mismunandi reglur hafa gilt og mismunandi hefur verið staðið að þessum sparisjóðum. En þar sem ég geri ráð fyrir því að þessi grein sé samin í samráði við stjórn Sambands sparisjóða á ég von á að fulltrúar sparisjóðanna geti líka á morgun, ef það þykir betur henta, gefið fullnægjandi upplýsingar um hvernig þetta er hugsað. Ég tel alveg nauðsynlegt að fá fram hver sé skilningur hæstv. ráðherra á 1. mgr. í 2. gr.: „Þar sem þrír menn sitja í stjórn kjósa sparisjóðsaðilar tvo stjórnarmenn en hlutaðeigandi sveitarstjórnir tilnefna einn mann“, og skal ég ekki gera þetta nánar að umtalsefni.

Varðandi 5. gr. vil ég aðeins segja að mér var ekki kunnugt um að þessi mál lægju þannig fyrir að sú mgr. sem hér er lagt til að verði lögfest eyði þeim ágreiningi sem nú hefur verið uppi varðandi skilninginn á því hvað fælist í ákvæðunum um 65% af eigin fé. Vil ég af því tilefni spyrja hæstv. viðskrh. hver sé hugsun hans varðandi t.d. íbúðir útibússtjóra eða sparisjóðsstjóra þar sem um slíkt er að ræða, hvort hann lítur svo á að telja eigi slíkar íbúðir með eða ekki.

Ég vil svo almennt lýsa því yfir sem minni skoðun að ég felli mig ekki við það orðalag sem hér stendur svo að ég lesi upp, með leyfi hæstv. forseta: „Sé bókfært virði fasteigna og búnaðar, sem sparisjóður notar til starfsemi sinnar, hærra en sem nemur 65% af eigin fé sjóðsins skal hlutfallið fara stöðugt lækkandi á þessu tímabili þar til 65% markinu er náð nema ráðherra veiti að fengnum tillögum Bankaeftirlitsins tímabundna undanþágu til hækkunar á hlutfallinu á tímabilinu.“

Nú geta ástæður verið þannig að það ástand skapist að hlutfallið fari hækkandi án þess að áður sé leitað heimildar ráðherrans af óviðráðanlegum ástæðum. Það var á sínum tíma umdeilt, en niðurstaðan varð sú að gefa fimm ára aðlögun. Mér er að vísu ljóst hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra þykir freistandi að orða þetta ákvæði með þeim hætti sem hér er gert, en ég vil lýsa því sem minni skoðun strax að ég er mjög efins um að þetta orðalag eigi rétt á sér og hlýtur nefndin að taka það til skoðunar á morgun og þá bæði í viðræðum við forsvarsmenn sparisjóðanna og kannski væri ástæða til að ræða einnig við bankaeftirlitið með hvaða hætti það hugsar sér að treysta að þessi þróun geti átt sér stað.

Ég vil enn fremur segja það sem mína skoðun að 65%, þetta hlutfall sem var ákveðið á sínum tíma, sem var slegið föstu á sínum tíma, er ekki heilög fala fyrir mér og fyndist mér eðlilegra að 5. gr. yrði látin bíða haustsins þannig að fjh.- og viðskn. gæfist svigrúm til að fara ofan í það mál sem hér um ræðir, en á hinn bóginn, ef fullt samkomulag ríkir og skilningur er á því hjá forsvarsmönnum sparisjóðanna að fara þá leið sem lagt er til í 2. gr., skal ég ekki standa gegn því, en 3. og 4. gr. frv. eins og þær liggja fyrir eru sjálfsagðar í mínum huga.