10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7953 í B-deild Alþingistíðinda. (6127)

455. mál, sparisjóðir

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Með allri virðingu fyrir hv. 7. þm. Reykv. fannst mér hann slá úr og í í sinni ræðu. Ýmist voru þessi mál sjálfsagðir hlutir, en það er eiginleiki sjálfsagðra hluta að þeir ganga eiginlega enn þá betur þegar þeir eru sagðir eða hér var um lít rætt stórmál að ræða. Ég verð að segja að mér finnst það eiginlega léttúðarfullt tal af hv. 7. þm. Reykv. að segja að þetta séu smámál, einhver öryggismál í fjárhag sparisjóða eða að setja reglur um hámark á útlán í hlutfalli við eigin fé þessara stofnana með skyldu til bankaeftirlits fyrir þetta. (SvG: Er ráðherrann með einhvern sérstakan sparisjóð í huga þar sem þetta er mjög erfitt?) Ég hef alla sparisjóði landsins í huga, hv. 7. þm. Reykv., það er málið, til þess eru slík ákvæði. Og mér finnst það furðu sæta að hv. 7. þm. Reykv. skuli kalla þetta smámál. Það kann að vera að fjárhagur þessara sjóða sé ekki allur umfangsmikill, en meginreglurnar eru þær sömu fyrir þessar sem aðrar lánastofnanir. Ég verð að segja að ég tel að þetta sé mikilvægt mál og það þurfi nákvæma skoðun. Það hefur fengið það í hv. Nd. og ég veit með vissu að það fær það líka í þessari deild.

Einhvern tíma hefði það þótt heiðursnafnbót að vera kallaður lagabætir og ég þakka fyrir hönd okkar Jónanna fyrir það einkunnarorð.

Eins vil ég segja að mér finnst, hv. 7. þm. Reykv.: Ef þetta eru svona sjálfsögð mál, hvers vegna á þá ekki að afgreiða þau nú þegar tími gefst til eins og hér var sagt áðan? Auðvitað eru það þörf mál sem hér eru á ferð. Hv. 6. þm. Reykv. virtist sömu skoðunar, að þetta væru sjálfsagðir hlutir. Hvers vegna þá ekki að afgreiða þá? Ég tek það fram að ég hef ekki talað gegn þessum brýnu málum sem óafgreidd eru og hér voru nefnd, en ég á eftir að sjá að það sitji margir á sumum nefndarformönnunum í þessari hv. deild.