25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Frv. það sem hér er lagt fram er frv. til l. um ráðstafanir í fjármálum og er það lagt fram til staðfestingar brbl. nr. 68/1987, um ráðstafanir í fjármálum, sem gefin voru út af forseta Íslands þann 10. júní sl.

Svo sem mælt er fyrir í 28. gr. stjórnarskrár ber að leggja brbl. fyrir Alþingi til staðfestingar er nýtt þing kemur saman. Þar sem hér er um staðfestingarfrv. að ræða er frv. lagt fyrir þingið í óbreyttri mynd. Af hálfu ríkisstjórnar er þó fyrirhugað að leggja til ýmsar breytingar á efni þess. Ber þar helst að nefna hækkun sérstaks söluskatts um 10% af ýmsum matvælum og þjónustu sérfræðinga þar sem áformuð breyting hljóðar upp á hækkun úr 10 í 12%.

Ráðstafanir þær í ríkisfjármálum sem frv. þetta felur í sér eru þingheimi kunnar frá lokum stjórnarmyndunarviðræðna og birtingu brbl. a liðnu sumri. Ég mun þess vegna aðeins stikla á helstu meginatriðum þeirra.

Í I. kafla er gert ráð fyrir innheimtu bifreiðagjalds af vélknúnum ökutækjum, þar með töldum hvers kyns bifreiðum og fjórhjólum. Gjald þetta hefur þegar verið lagt á vegna tímabilsins frá 11. júlí sl. til 31. des. nk., sbr. ákvæði brbl. nr. 68/1987.

II. kafli mælir fyrir um álagningu 10% söluskatts á matvæli og þjónustu sérfræðinga. Tiltekin matvara, þar með talið mjólkurvörur, egg, kjöt og fiskur, er þó undanþegin skattinum samkvæmt fyrirmælum í reglugerð. Skattlagning þessi er af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrsta skrefið í þeirri áætlun ríkisstjórnarinnar að fækka undanþágum frá söluskatti sem aðdraganda að nýju virðisaukaskattskerfi. Ríkisstjórnin mun síðar gera annað tveggja, að leggja fram brtt. við 10. gr. frv. og leggja þá til að skatturinn verði hækkaður um 12% eða flytja sérstakt frv. um það efni.

Þar sem framangreindar breytingar á söluskattskerfinu leiddu óhjákvæmilega til hækkunar á útgjöldum heimila var jafnframt ákveðið að verja um 100 millj. kr. til hækkunar sérstaks barnabótaauka sem fyrst og fremst kemur barnmörgum fjölskyldum með lágar tekjur til góða. Minna má á í því samhengi að jafnframt voru á liðnu sumri gerðar ráðstafanir til að hækka sérstaklega elli- og örorkulífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbætur að því marki að þessar greiðslur ásamt greiðslum úr lífeyrissjóðum og öðrum tekjum yrðu ekki lægri en lágmarkslaun í landinu frá 1. sept. sl. þannig að lágmarksframfærslueyrir einstaklinga með heimilisuppbót yrði við það 28 þús. kr. á mánuði í stað 25 þús. sem áður hafði verið.

III. kafli frv. fjallar um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt til hækkunar barnabótaaukans sem ég gat um áðan, en með þeim var barnabótaauki á þessu ári færður úr rúmum 25 þús. kr. í um 30 þús. kr.

Til þess að draga úr þenslu í efnahagslífi er í IV. kafla frv. gert ráð fyrir upptöku sérstaks skatts á erlendar lántökur. Áætlað er að skattur þessi skili af sér 230 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári. Stefnt er að því að fella skattinn niður í lok næsta árs til að hvetja þá sem hyggja á erlendar lántökur til að fresta áformum sínum.

Í V. og VI. kafla er að finna breytingar á lögum um ríkisábyrgðir á á þann hátt að áhættugjöld eru hækkuð, auk þess sem sérstakt gjald er nú lagt á aðila sem hingað til hafa verið undanþegnir, svo sem ríkisviðskiptabankarnir, Útvegsbankinn, ýmsir lánasjóðir, Landsvirkjun og fleiri aðilar. Gert er ráð fyrir að árlegar tekjur af ríkisábyrgðagjaldi hækki um 130 millj. kr. við þessar aðgerðir.

Að lokum er í VII. kafla lagt til að tollur á fjórhjól hækki úr 10% í 90%.

Herra forseti. Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frv. og legg að lokum til að því verði vísað til fjh.- og viðskn. að lokinni 1. umr. í hv. Ed.