25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. þm. lýsti þeirri skoðun sinni að hann væri andvígur þessum ráðstöfunum, þ.e. útvíkkun á skattstofni söluskatts með fækkun undanþága að því er snertir matvæli, ef þeim fylgdu ekki jafnhliða tekjujöfnunaraðgerðir á móti. Af því tilefni er ástæða til að rifja upp aftur, sem fram kom í minni ræðu, að við þessar aðgerðir, sem lýst var í brbl. og hér er flutt frv. til staðfestingar á, var þess sérstaklega gætt að jafnframt var gripið til sérstakra hliðarráðstafana, þ.e. það var varið tæplega 200 millj. kr. annars vegar til að hækka barnabótaauka til barnmargra fjölskyldna sem og gerðar sérstakar ráðstafanir, um 100 millj. kr., til að hækka bótagreiðslu almannatrygginga. Þessar ráðstafanir voru að mati ríkisstjórnarinnar taldar nokkurn veginn duga til að mæta verðhækkunaráhrifum af þessum aðgerðum á liðnu sumri að því er varðaði verðhækkunaráhrif sem snertu þessa tekjulágu hópa. Þessi aðgerð út af fyrir sig fullnægði því þeim skilyrðum, sem hv. þm. sagði að gera bæri réttilega, að jafnhliða yrði gripið til tekjujafnandi aðgerða til að bæta verðhækkunaráhrif.

Að því er varðar framhald málsins er þetta um málið að segja:

Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að til að greiða fyrir viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins frestaði hún upphaflegum áformum sínum um flýtingu á næsta áfanga í breytingu á söluskatti sem koma átti til framkvæmda 1. nóv. sl. Hins vegar liggur ljóst fyrir um upphafleg áform um róttæka breytingu á söluskattskerfinu að að því er stefnt að þau komi til framkvæmda um næstu áramót. Það kallar á viðamiklar lagabreytingar.

Þær lagabreytingar snúast um endurskoðun á tollskrá, þ.e. tolltöxtum tollskrárlaga. Í öðru lagi breytingar að því er varðar vörugjöld, niðurfellingu á um það bil fimm ýmiss konar gjöldum sem nú eru við lýði, en álagningu samræmds vörugjalds til að mæta tekjutapi ríkissjóðs við verulega og umfangsmikla lækkun tolla. Í þriðja lagi er síðan um að ræða söluskattsbreytingu sem felur í sér nokkra útvíkkun til viðbótar á söluskattsstofninum með fækkun undanþága en jafnframt lækkun söluskattsprósentunnar.

Eðlilegt er að spurt sé hvar sé á vegi staddur undirbúningur að þessum málum. Því er til að svara að í fyrstu gerð hafa frumvörp um öll þessi efni verið lögð fram og rædd í ríkisstjórn á nokkrum ríkisstjórnarfundum og greinargerðir um þau hafa verið teknar saman, þ.e. um grundvallaratriði og helstu meginatriði, og afhentar þingflokkum stjórnarsinna. Því til viðbótar er þess að geta að þingflokkar þeir sem styðja ríkisstjórnina hafa tilnefnt fulltrúa sína til að vinna með fjmrn., fjmrh. og embættismönnum hans við lokafrágang þessa máls og ljóst er nú að þess er að vænta innan fárra daga að þessi frumvörp verði lögð fyrir.

Þá er spurningin um hver áhrif þessi róttæka breyting á kerfi óbeinna skatta hefur í för með sér fyrir almenning í landinu. Fyrsta atriðið er að hér er um að ræða verulegar tollalækkanir. Um það er að ræða að færa hæstu tolla úr 80–90% niður undir um það bil 30%. Í öðru lagi að fella niður með öllu tolla á aðföngum, vélum, tækjum og hráefnum til íslensks iðnaðar, samkeppnisiðnaðar og útflutningsiðnaðar. Þessar breytingar hafa verið lengi á döfinni og lengi í undirbúningi. Frv. um endurskoðun á tollskrá voru að hluta til samþykkt og gerð að lögum á seinasta þingi, en þrátt fyrir boðaðar breytingar féll seinasta hæstv. ríkisstjórn frá áformum sínum um að endurskoða tolltaxtana til enda þannig að þess er nú freistað á ný. Málið hefur verið tekið til heildarendurskoðunar og í samræmi við starfsáætlun ríkisstjórnar og stjórnarsáttmála verður þess freistað að leggja þetta fyrir þing og fá það afgreitt sem lög fyrir næstu áramót.

Ef spurt er hvaða verðháhrif þessar breytingar hafa liggur ljóst fyrir að tollalækkanirnar sem slíkar munu þýða tekjutap fyrir ríkissjóð sem áætla má u.þ.b. 4500 millj. kr. Til að mæta því tekjutapi verður lagt á sérstakt samræmt vörugjald sem verður 17% og er þá jafnt bæði á innlenda framleiðslu sem innflutta. Á því stigi sem nú er rætt um málið er auk þess áformað að leggja vörugjaldsálag á tiltekna vöruflokka sem flokka má ef menn vilja undir manneldisstefnu. Þessir vöruflokkar eru fáir, það er aðallega sælgæti, og raskar þó ekki verðhlutföllum að því er þessa flokka varðar af því að þeir bera hærra vörugjald nú þegar en ýmsir aðrir.

Heildaráhrifin af þessari tollalækkun og afnámi tolla og álagningu þessa vörugjalds eru þau að verð á yfirgnæfandi meiri hluta neysluvarnings og reyndar aðfanga atvinnuveganna lækkar verulega þannig að áhrif þessa á mælikvarða framfærsluvísitölu væri lækkun á framfærslukostnaði sem svarar um 3%. Þegar dæmið er síðan skoðað í heild sinni, lækkun og afnám tolla, nýtt vörugjald og lækkun söluskattsprósentu úr 25 í 22%, þýðir þetta í heild sinni að ætla má að verðbreytingar á mælikvarða neysluvöruverðlags og á mælikvarða framfærslukostnaðar verði einhvers staðar á bilinu 1–1,4%.

Jafnframt er boðað í samræmi við starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að þessum aðgerðum verði fylgt eftir með mjög umfangsmiklum aðgerðum til að bæta þessi verðhækkunaráhrif sem mælast upp á rúmlega 1,4%. Núverandi áform eru þau að u.þ.b. 1700 millj. kr. verði varið í þessu skyni. Það skal tekið fram að enn hafa ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir við undirbúning þessara frv. um hvaða leiðir verði farnar í þessu skyni. Ástæðan er einmitt sú, sem hv. síðasti ræðumaður vék að, að menn vilja gjarnan tengja saman, þegar menn ræða um skattkerfisbreytingar og skattbyrði, annars vegar þau frv. sem nú er verið að leggja fram, hið fyrsta þegar fram komið, um staðgreiddan tekjuskatt, og svo hins vegar þessar tekjujöfnunaraðgerðir sem eru til þess ætlaðar að koma til móts við þá hópa sem helst er ástæða til, þ.e. bótaþega almannatrygginga, barnmargar fjölskyldur, einstæð foreldri o.s.frv. Þessi mál eru til vinnslu í meðförum ríkisstjórnar og þingflokkum stjórnarliða og koma hér fram hvert á fætur öðru næstu daga.

Til að draga saman að gefnu tilefni það sem hv. þm. lagði áherslu á er það þetta:

Á undanförnum árum á liðnu kjörtímabili lagði Alþfl. á það megináherslu í öllum málflutningi sínum, þar á meðal í stefnuyfirlýsingu sinni fyrir kosningar, að nauðsyn bæri til að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins í heild sinni. Það bæri að gera að því er varðar neysluskatta út frá þeim meginreglum að fækka undanþágum, breikka skattstofn, lækka álagningarprósentu. Þetta var sérstaklega rökstutt með vísan til tillagna skattsvikaskýrslunnar svokölluðu sem unnin var undir verkstjórn framkvæmdastjóra Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, en í þeirri skýrslu var lögð sérstök áhersla á að aðferðin til að bæta skattaskil og skattaframkvæmd og draga úr undandrætti í skattheimtu væri fyrst og fremst sú að fara þessa leið. Þannig er það sem hér er gert að sjálfsögðu í fullkomnu samræmi við málflutning Alþfl., stefnumörkun hans fyrir kosningar og að sjálfsögðu í samræmi við starfsáætlun ríkisstjórnarinnar og almenna stefnuyfirlýsingu.

Það atriði er rætt að þess verði að gæta sérstaklega að ekki verði gripið til breytinga á neysluskattakerfinu nema jafnframt verði gripið til hliðarráðstafana til að bæta ýmsum þjóðfélagshópum upp verðlagsáhrif. Þess hefur verið gætt og þess verður gætt. Þannig fæ ég ekki betur séð en að þær lagabreytingar sem er verið að byrja að kynna séu í fullkomnu samræmi, ekki aðeins við málflutning Alþfl. fyrir kosningar, stefnumörkun hans, heldur einnig í fullkomnu samræmi við það samkomulag sem tókst milli stjórnarflokkanna um endurskoðun á skattakerfinu.

Það er sérstök ástæða til að nefna að sú leið sem núverandi ríkisstjórn hefur boðað í efnahagsmálum, sem byggir á því þrátt fyrir nokkuð háværa andstöðu að halda fast við fastgengisstefnu þrátt fyrir að mörgu leyti versnandi horfur, á mikið undir því hvernig þessi efnahagsrammi er skilinn og hvernig honum er tekið af aðilum, ekki aðeins þeim sem á þingi sitja heldur og aðilum utan þings. Þessi leið er vandfarin, vandrötuð og erfið. Vonin um árangur byggist á því að við verðum ekki fyrir meiri háttar áföllum að því er varðar ytri skilyrði, sem gætu raskað mjög starfsskilyrðum atvinnuvega, og hún byggir á því að um það geti tekist sæmileg samstaða, að það takist kjarasamningar sem miða að tvennu, að kauphækkanir í krónutölu verði ekki umfram þann tiltölulega þrönga ramma sem þjóðarbúinu er nú sniðinn vegna fyrirsjáanlega versnandi kjara á næsta ári, einkum og sér í lagi vegna breyttra forsendna í fiskveiðistefnu, og í annan stað að það takist í slíkum kjarasamningum að leiðrétta tekjuskiptinguna innbyrðis þannig að þeir hópar launafólks sem ekki hafa notið fastlaunasamninga, ekki hafa notið launaskriðs fái kjör sín bætt. Meginatriðið er m.ö.o. að varðveita þann kaupmáttarauka, sem hefur áunnist á þessu ári og nemur ekki minna en 16–17% að meðaltali, fremur en horfa upp á að hann eyðist í nýrri verðbólgukollsteypu sem yrði óhjákvæmilegur fylgifiskur gengisfellingar við óbreytt skilyrði.

Þetta er að mínu mati kjarni málsins. Það eru tvær athugasemdir sem hér eru gerðar. Annars vegar er athugasemd um að erfitt væri að styðja hreinsunaraðgerðir í skattakerfinu sem miða að því að draga úr skattundandrætti og gera menn jafnari fyrir skattalögum nema því aðeins að þeim fylgdu tekjujöfnunaraðgerðir. Því skilyrði verður fullnægt. Og í annan stað er lögð áhersla á að þess verði gætt við mörkun þessarar stefnu í skattamálum að leita eftir fullu samráði við aðila vinnumarkaðarins um að reyna að stilla í hóf skattbyrði, sem hefur að sjálfsögðu veruleg áhrif á kaupmátt og lífskjör, ef það mætti verða til þess að greiða fyrir kjarasamningum sem gætu þjónað þessum tveimur markmiðum, að launahækkanir færu ekki upp allt sviðið, að leiðréttingar fengjust fyrst og fremst fyrir þá sem verst eru settir, en heildarlaunabreytingar yrðu innan ramma þess sem íslenskt atvinnulíf og íslenskur þjóðarbúskapur getur undir risið nú í ljósi þess að horfur fram undan á næsta ári eru versnandi. Þetta er allt í samræmi við marglærðar lexíur þjóðarinnar af efnahagsmálastjórn undanfarinna ára og áratuga.

Ég vil að lokum einungis, herra forseti, leggja áherslu á að ég læt í ljós þá einlægu von og ósk að ekki aðeins hv. Alþingi, stjórnarmeirihluti, heldur einnig aðilar vinnumarkaðarins, forsvarsmenn atvinnulífsins og þjóðin í heild beri gæfu til að vinsa kjarnann frá hisminu í þessari umræðu, láta ekki villa sér sýn, að þjóðin reynist hafa þolgæði og þrek til að fara hina vandfarnari leið, þótt það kunni að líða nokkur tími áður en árangur næst, fremur en að fara hina gamalreyndu leið efnahagskollsteypunnar sem mun að fenginni reynslu alveg óvefengjanlega kasta á glæ þeim árangri sem þrátt fyrir allt hefur náðst og væri því miður engum til hagsbóta.