25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég held ég verði að taka undir þau orð, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að nauðsynlegt væri að vinna ötullega að því að endurskoða og laga tekjustofnakerfi ríkissjóðs. Við erum alveg sammála um það, ég og hæstv. fjmrh. Síðasta ríkisstjórn beitti sér mjög fyrir nýskipan einmitt í tekjuöflunarkerfinu og eins og þm. muna var frv. um virðisaukaskatt lagt fyrir síðasta Alþingi og voru lengi horfur á að það yrði afgreitt á því þingi, en niðurstaðan varð sú að virðisaukaskattinum var ýtt til hliðar og látið sitja fyrir að taka upp staðgreiðslukerfi á beinum sköttum í staðinn, en of flókið mál var talið af skattstjórum og ríkisskattstjóra að gera hvort tveggja í senn, umbylta skattkerfi beinna og óbeinna skatta. Þetta er skýringin á því að ný tollskrá hefur beðið og það hefur beðið að lögfesta ný lög um virðisaukaskatt.

Ég held að það sé nauðsynlegt að þessi athugasemd komi fram vegna þeirrar miklu áherslu sem hæstv. fjmrh. lagði á það í sinni ræðu að hér værum við að framkvæma einhverja sérstaka stefnu Alþfl. með þeirri lagfæringu sem nú fer fram á tekjuöflunarkerfinu. Þetta er auðvitað alls ekki rétt. Við erum að vinna áfram að þeim umbótum í opinberu peningakerfi sem hafnar voru af fyrri ríkisstjórn. Ég vil segja fyrir hönd míns flokks: Við erum auðvitað ánægðir yfir því að fá svo röskan mann sem hæstv. fjmrh. til að hjálpa okkur að vinna þau verk sem nauðsynleg eru í þessu skyni.

Ég held að hv. 4. þm. Vesturl. hafi gert of mikið úr því að það væri mikill ágreiningur innan stjórnarliðsins. Það hefur oft verið svo og við þekkjum það báðir af sögunni, að þegar þingmeirihluti er rúmur vill það brenna við að einstakir þm. leyfa sér ýmislegt sem síður er tilfellið þegar naumasti meiri hluti er á Alþingi. Þetta er einu sinni þannig og um þær breytilegu áherslur sem eru á einstökum þáttum efnahagslífsins og hafa komið fram í umræðunni var okkur löngu kunnugt áður. Sá opni ágreiningur hv. 3. þm. Vestf. við flokksbræður sína lá fyrir og einnig hefur það legið fyrir að hv. 8. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur viljað ganga lengra í frjálsræðisátt en meirihlutafylgi hefur verið við hér á landi og hefur ekki viljað ganga jafnlangt í álagningu opinberra gjalda og nú er stefnt að.

Þessi ágreiningur hefur verið öllum ljós og er alls ekki nýr af nálinni og ég vil leyfa mér að halda því fram að báðir hv. þm. hafi mikið til síns máls. Sérstaklega vil ég segja um hv. 3. þm. Vestf. að miðað við sögu Alþfl. og hversu duglegur Alþfl. var fyrr á tímum að leggja niður matarskattana er það augljóst með jafnþráan mann og þennan hv. þm. að hann fer ekki af þeirri línu undir eins og vill reyna að halda í þá gömlu rós Alþfl. sem var niðurlagning matarskatta. Það skil ég afskaplega vel. En við í gamla íhaldinu erum miklu ánægðari yfir því að vera búnir að fá hæstv. fjmrh. yfir til okkar sem virðist skilja það nú, sem alþýðuflokksmenn áttu erfitt með að skilja hér áður, að auðvitað er allt eftirlit með álagningu og innheimtu söluskattsins erfiðara eftir því sem undanþágurnar eru fleiri. Um þetta er ég alveg sammála hæstv. fjmrh. og hefði kannski verið betur að þeir í Alþfl. hefði komið auga á þetta miklu fyrr því þá hefði ekki verið nauðsynlegt að gera þá hreingerningu núna sem hann stendur fyrir, en það hefur einmitt torveldað mönnum að lögfesta virðisaukaskattinn að menn hafa séð ofsjónum yfir því að matarskattar verði á lagðir þó svo fyrir liggi að sums staðar séu breytilegar prósentur einnig í virðisaukaskattinum. Þetta vil ég að fram komi.

Ég tek undir með hæstv. fjmrh. að það er auðvitað kvíðvænlegt að sá mikli hagvöxtur sem verið hefur skuli ekki halda áfram og hvernig gengisþróun hefur verið. Ég deili áhyggjum með honum yfir því hver þróun mála verði í kjaramálum. Það er öldungis ljóst, ef samið verður um miklar krónutöluhækkanir, að gengið þolir það ekki. Útflutningsatvinnuvegirnir þola það ekki. Þetta vitum við sem hér erum inni og tökum undir áhyggjur hans að því leyti, um leið og ég legg áherslu á að festa bæði í ríkisfjármálum og öðru sé nauðsynleg við þau skilyrði sem við búum nú við.

Ég ætta ekki að fara að tala við hv. 4. þm. Vesturl. mikið um fiskveiðistefnuna. Sú umræða verður síðar. En ég held á hinn bóginn að það sé algerlega rangt hjá hv. þm. að mismunandi fiskgöngur í sjónum eigi rætur sínar að rekja til þess. Við erum auðvitað sammála um að nauðsynlegt sé að hafa stjórn á fiskveiðunum. Við getum sagt að útgerðaraðilar í einstökum byggðarlögum hafi mismunandi sjónarmið. Það eru hagsmunir sem stangast á og við munum síðar skiptast á skoðunum um hvernig hægt sé að standa að fiskveiðistefnunni, en erfiðleikar okkar nú eru að því leyti ekki ytri aðstæður heldur innri aðstæður að það er takmarkað sem við getum sótt í sjóinn. Við hljótum að takmarka sóknina, eins fullkominn og veiðibúnaðurinn er orðinn og eins stór og flotinn er orðinn. Þetta setur okkur í vissan vanda og veldur erfiðleikum í atvinnuuppbyggingunni, ekki síst úti á landi.

Ég held að það sé ekki ástæða, herra forseti, dl að fara frekari orðum um þetta mál. Ég ítreka það, sem ég sagði, að hæstv. fjmrh. þarf ekki að vanda sig svo mikið þegar hann gerir grein fyrir nýskipan skattamálanna að segja: Stefna Alþfl. og stefna ríkisstjórnarinnar. Þetta lá allt saman fyrir áður en kosið var, í stjórnarmyndunarviðræðunum og síðar. Allir þrír stjórnarflokkarnir gerðu sér grein fyrir því að nauðsynlegt var að umbylta tekjustofnakerfinu.

Ég veit ekki hvort það er ástæða til að fara aðeins út í virðisaukaskattinn út af þeim ummælum hv. 4. þm. Vesturl. þegar hann var að gera lítið úr þeirri breytingu og ætti hann þó sem útgerðarmaður einmitt að fagna því ef virðisaukaskatturinn yrði tekinn upp vegna þess að hann miðar öðrum þræði að því að bæta stöðu útflutningsframleiðslunnar, útflutningsgreinanna, og hins vegar að því að jafna skattbyrðina þannig að ekki komi upp misræmi eða misvægi milli einstakra fyrirtækja í sömu greinum eftir stærð. Ókosturinn við uppsafnaðan söluskatt, ókosturinn einmitt við að leggja söluskatt á hvað eina er sá að hann safnast upp mjög misjafnlega eftir eðli fyrirtækjanna. Þannig er t.d. enginn vafi á því að ákvæðið um að leggja sérstakan söluskatt á bókhaldsþjónustu leggst miklu þyngra á smáfyrirtækin en risa eins og SÍS. Þetta vita allir sem hafa fengist við skattamál. Það er einmitt til að draga úr slíku óþolandi misræmi sem nauðsynlegt er að koma virðisaukaskattinum á, jafna byrðarnar milli fyrirtækjanna þannig að rekstrarformin skipti ekki máli heldur það sem aðhafst er og gert í hinum einstöku fyrirtækjum og til þess líka að bæta stöðu útflutningsframleiðslunnar og samkeppnisiðnaðarins þannig að hér geti starfað heilbrigður rekstur.