26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

35. mál, milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta

Fyrirspyrjandi (Óli Þ. Guðbjartsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans sem mér að vísu komu ekki með öllu á óvart. Það er rétt, sem fram kom í máli hans, að ýmsar nefndir hafa verið að störfum á þessum vettvangi. Engu að síður er mér kunnugt um að það var rétt, sem ég sagði í upphafi, að tvívegis var eftir því leitað af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga að fá fulltrúa í þessari nefnd. Hvort það var við núv. fjmrh. eða ekki skal ég ekki um segja.

Hins vegar er aðalatriði þessa máls að kerfisbreytingin í innheimtu beinna skatta er víðtæk aðgerð sem miklu skiptir að takist vel, en mikilvægi þess skiptir sveitarfélögin vitaskuld miklu meira máli en ríkið vegna þess að vægi þeirra tekna sem koma úr beinu sköttunum er miklu meira fyrir sveitarfélögin en ríkið. Það er gert ráð fyrir að milli 5 og 6 milljarðar kr. verði tekjur ríkisins á þessum vettvangi af ca. 60 milljarða kr. heildartekjum, þ.e. einungis um 8%. Sveitarfélögin hins vegar fá af þessum vettvangi um 50% tekna sinna. Það er þess vegna verulegt atriði að sveitarfélögin hefðu á öllum stigum þessa máls haft þarna fullgilda fulltrúa, ekki síst þegar um er að ræða skattbyrðina sjálfa sem verið er að fjalla um og aðra tæknilega þætti í þessu sambandi sem verulegu máli skiptir að fari vel í upphafi næsta árs.