131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:59]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af þessum orðum hv. þingmanns Drífu Hjartardóttur vil ég benda á að það vill svo til að þessir „aðrir“ eru ráðherrar sem eiga að sitja fyrir svörum og eru ábyrgir fyrir því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar, fjárlagafrumvarpinu. Þessi umræða er geymd en ekki gleymd.

Talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa fjallað allítarlega um fjárlagafrumvarpið, farið um það almennum orðum, og hér vísa ég fyrst og fremst til fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd. Ég ætla að fara nokkrum orðum um einstaka þætti þess og byrja á því að slá nokkuð jákvæða nótu og víkja að lífeyrismálum. Hæstv. forsætisráðherra vék að því í ræðu sinni hér í gær — ég er nú orðinn vanur því að kalla hæstv. ráðherra Davíð Oddsson forsætisráðherra en hann mun vera kominn í utanríkisráðuneytið — en hann vék að því í gær að miklar fjárhæðir hefðu verið greiddar inn í opinbera lífeyriskerfið á undanförnum árum og það er rétt. Á þessu sviði hefur ríkisstjórnin sýnt fyrirhyggju og á lof skilið fyrir það.

Það var ljóst um miðjan tíunda áratuginn að það stefndi í mikið óefni í þeim lífeyrishluta sem er á ábyrgð fjármálaráðuneytisins, þ.e. lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, og þá var tvennt gert. Lögum um lífeyrissjóði var breytt, það var lögfest ný rammalöggjöf um lífeyrissjóði í landinu og lífeyriskerfi opinberra starfsmanna var einnig breytt í kjölfar samninga sem tókust milli heildarsamtaka opinberra starfsmanna annars vegar og fjármálaráðuneytisins hins vegar. Lög þessi voru staðfest síðari hluta árs 1996. Með þeirri lagabreytingu var opinbera lífeyriskerfið gert sjálfbært í þeim skilningi að sjóðurinn, þ.e. það sem kemur inn í sjóðinn, iðgjöldin, á að rísa undir þeim réttindum sem í sjóðnum skapast.

Hitt sem gert var og hefur verið gert síðan eru þessar greiðslur inn í lífeyriskerfið, 7,5 milljarðar á yfirstandandi ári, 4 milljarðar á komandi ári. Þetta eru ekki niðurgreiðslur til lífeyriskerfisins, nær væri að segja að lífeyriskerfi opinberra starfsmanna hafi niðurgreitt aðra starfsemi á vegum ríkisins um áratuga skeið vegna þess að lífeyrissjóðurinn var notaður til að fjármagna margvísleg verkefni á vegum ríkisins, þaðan voru veittir peningar inn í húsnæðiskerfið svo dæmi sé tekið, og ef sjóðurinn hefði ekki verið til staðar hefðu byrðar almannatryggingakerfisins verið miklu meiri en þær ella hafa orðið.

Þetta er nokkuð sem Íslendingar eru nokkuð stoltir af, að hafa byggt upp öflugt og kannski öflugra lífeyriskerfi en aðrar þjóðir eru að gera. Það varð fyrrverandi forseta Alþýðusambands Íslands tilefni til ræðuhalda á vegum Tryggingastofnunar ríkisins fyrir fáeinum dögum þar sem hann sagði að framtíðin væri svo björt fyrir eldri kynslóðina eða komandi eldri kynslóðir að hann sá ástæðu til að tala um hana sem forréttindastétt framtíðarinnar. Ég var staddur í salnum til að hlýða á þessar umræður sem voru bráðskemmtilegar. En þar stóðu nú upp einhverjir fulltrúar aldraðra sem sögðu að það væri varasamt að alhæfa svona um eldri kynslóðina. Ég vil einnig vara við svona mögulegri sjálfsblekkingu í þessum efnum vegna þess að þessi hugsun byggir á því að við séum að leggja peninga til hliðar svona í eins konar sparigrís upp í hillu og þegar að því kemur munum við sækja þá fjármuni. Það er eins og hún hafi gufað alveg upp umræðan sem var mjög öflug hér fyrir nokkrum árum, að eftir tvo til þrjá áratugi mundu hlutföllin eða aldurssamsetningin í þjóðfélaginu breytast á þann veg að það yrðu færri sem yrðu vinnandi og yrðu að sjá farborða þeim sem væru komnir á ellilífeyri, að þessi hlutföll yrðu erfiðari eftir því sem liði á og mikill vandi blasti við í framtíðinni. Nú er þessi umræða búin vegna þess að uppi í hillu stendur sparigrísinn.

Staðreyndin er eftir sem áður sú að við þurfum að taka þessi verðmæti út úr efnahagskerfinu þegar þar að kemur, hvort sem við gerum það í gegnum skatta eða í gegnum arðtöku út úr fyrirtækjum í landinu og reyndar heiminum öllum, vegna þess að við erum farin að dreifa þessari áhættu.

En það sem ég vildi sagt hafa er það að lífeyriskerfið í landinu er að eflast og það er talsvert til í því sem Ásmundur Stefánsson, fyrrvarandi forseti ASÍ, segir um stöðu aldraðra eftir tvo til þrjá áratugi. En ekki allra aldraðra. Og hvar er undantekningin þar?

Það eru þeir sem ekki eiga aðild að þessu kerfi. Hverjir eru það? Það eru öryrkjar og sérstaklega þeir öryrkjar sem aldrei komast út á vinnumarkaðinn. Það er sá hópur sem kemur til með að búa við lökust kjörin nema eitthvað sé að gert. Og það var þess vegna sem menn fögnuðu því sérstaklega þegar undirritað var samkomulag í Þjóðmenningarhúsinu 25. mars 2003, fáeinum vikum fyrir alþingiskosningar. Það fór illa í marga að vísu að menn gerðu samkomulag sem vísaði inn í framtíðina, inn á næsta kjörtímabil. Margir litu á þetta sem eina af brellum Framsóknarflokksins en engu að síður ákváðu menn — ég gerði það fyrir mitt leyti — að fagna þessu samkomulagi, að fagna þessum samningi.

Þessi samningur gekk út á það að tvöfalda grunnlífeyri, hækka hann úr 20.600 kr. í 41.200 kr. Síðan átti að koma skerðing um 421 kr. fyrir hvert ár að 67 ára aldri, línuleg skerðing upp á við. Þetta var samningur og frá þessum samningi var ítarlega greint í fjölmiðlum á þeim tíma. Það var skýrt frá samningnum í Ríkisútvarpinu, það var skýrt frá honum í Morgunblaðinu, það var skýrt frá honum á Stöð 2 og ég er með tilvitnanir í þessar fréttir. Ég ætla ekki að lesa þær upp vegna þess að ég hef ekki tíma til þess en ég er með þær allar. Það var líka greint frá þessum samningi í bréfi frá heilbrigðisráðuneytinu til Tryggingastofnunar 9. apríl.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Sú breytta mynd af grunnlífeyri öryrkja sem samkomulagið gerir ráð fyrir er tvöföldun á lífeyrisupphæðir, þ.e. tvisvar sinnum 20.630 fyrir þá sem greinast með örorku 18 ára, sem lækkar um 421 krónu fyrir hvert aldursár öryrkjans með vísan hvenær hann er greindur með örorku. Meðfylgjandi tafla skýrir þetta betur.“

Þetta er samkomulag, þetta er samningur, og við fögnuðum þessum samningi.

Síðan er núna farið að tala um þetta mál þannig að enginn samningur hafi verið gerður. Það gerðu menn ekki á síðasta ári og ekki síðast þegar við ræddum málið hér.

27. nóvember segir í leiðara Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn, sem í vor töldu ríkissjóð hafa nægt svigrúm, þannig að bæði væri hægt að lofa að lækka skatta og heita öryrkjum brýnum kjarabótum, geta ekki verið þekktir fyrir að seinka nú efndum loforða sinna og raunar undirskrifaðs samkomulags. Þetta er spurning um trúverðugleika stjórnmálamanna gagnvart kjósendum sínum. Orð eiga að standa.“

Undir það tek ég.

Síðan gerist það hér í gærkvöldi að nýr forsætisráðherra þjóðarinnar vísar í þetta mál, vísar í það sem hann kallar staðreyndir málsins og vísar þar í fréttatilkynningu sem var send sem byggði á kostnaðarmati á framkvæmd samningsins. Og ég segi, og vísa þar í reynslu mína við samningaborð, að ef menn ætluðu að fara á þennan hátt með kjarasamninga, (Forseti hringir.) ég veit bara ekki hvað gerðist í samfélaginu, og bið ég hér með um orðið að nýju, herra forseti.