131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:25]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. samgönguráðherra lifir þá tíð að hafa úr mjög miklum fjármunum að spila og jafnvel svo miklum að varla sé hægt að koma þeim öllum í lóg.

En ég vænti þess, miðað við orð hæstv. ráðherra, að ekki sé ætlunin að fresta neinu sem snýr að jarðgangaáætlun, þ.e. athugun á næstu jarðgangakostum því það er auðvitað afar erfitt að horfa upp á það enn á ný að það muni koma eyða í jarðgangaframkvæmdir í landinu vegna þess að nú er aftur búið að safna upp verkkunnáttu sem væri gífurlega mikilvægt að nýta áfram og fá þar af leiðandi hagstæðari tilboð, en eins og við munum var ætlunin að bjóða Héðinsfjarðargöngin út með Fáskrúðsfjarðargöngum en hætt við það á síðustu stundu og síðan frestað öllum framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng. Það hefur því ekki enn reynt á að bjóða út svolítinn pakka í jarðgöngum til þess að lækka kostnað og auka vonandi framkvæmdahraða.