131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:49]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er gríðarlega mikilvægt mál og m.a. þess vegna hefur verið farið út í verkefnið Rafrænt samfélag sem er eitt af áhersluatriðum byggðaáætlunar. Þar unnu tveir sveitarfélagaklasar til verðlauna, og verðlaunin voru þau að taka þátt í verkefninu með aðstoð ríkisvaldsins. Þetta er annars vegar sveitarfélag á Suðurlandi og hins vegar á Norðurlandi og ég bind miklar vonir við þetta verkefni, líka til þess að sem allra flestir geti höndlað þetta mikilvæga upplýsingamál sem er það að kunna á þessi samskipti.