131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:49]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók þetta nú sem gagnrýni á þessa ráðherra og þó svo að hún hafi ekki verið að gagnrýna þá beint tel ég það gagnrýni vert að hæstv. ráðherrar skuli ekki sinna þessari umræðu betur. Þó verður að minnast á þá sem hafa verið hér viðstaddir og virða það við þá. Ef ég man rétt var hæstv. samgönguráðherra hér. Aðrir hafa í raun ekki komið hér í salinn þó svona mikilvæg mál hafi verið til umræðu sem mörg hver snerta kjördæmi þeirra. Það er í rauninni furðulegt hvað þeir lítilsvirða málaflokkinn með þessu.

Vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um árangur fyrir austan, á Austurlandi, þá ætla ég að vitna í útprent frá Fjölmiðlavaktinni. Þar kemur fram að innfæddum Austfirðingum hafi fækkað um 12 en fjölgunina sem hefur verið á Austfjörðum má rekja til útlendinga.

Við skulum þó ekki dvelja of lengi við fækkun eða fjölgun á þessum ársfjórðungi heldur eiga þessar upplýsingar að liggja hér fyrir þegar við ræðum byggðamál og líka um fækkun og fjölgun starfa. Umræða eins og þessi um þessa skýrslu, um verkefni út og suður, skilar ákaflega litlu. Ég hefði talið miklu vænlegra til að örva vitrænar umræður um málaflokkinn að hafa þessar tölur uppi á borðinu og í skýrslunni.