131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

[15:42]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég met að sjálfsögðu áhuga þingmannsins á þessu máli og geri ekki lítið úr honum. Það er nú ekki um það að ræða að einhverjir menn úti í bæ séu að fjalla um þetta heldur eru það stjórnendur Spalar, þess hlutafélags sem fengu með sérstökum samningi við ríkið leyfi til að grafa göngin. Þeir hafa fullt vald og fullan rétt til þess að fjalla um þetta mál.

Ég hef lýst þeim vilja mínum að allra leiða verði leitað í samstarfi við stjórn Spalar til þess að lækka gjaldið og ég á von á því að þeir ágætu stjórnendur leggi sig fram við að finna leiðir til þess.