131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:29]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég væni hv. þingmann ekki um að hann hafi gaman af því að fólk sé drepið. (EKG: Þú varst að segja það.) Ég er að biðja hann afsökunar á þeim ummælum sem voru kölluð fram í hita leiksins. Ég er hins vegar að vekja athygli á því að við erum núna að verða vitni að mjög alvarlegum og svívirðilegum stríðsglæpum. Það er verið að drepa konur, það er verið að drepa börn, það er verið að drepa karla, það er verið að drepa saklausa borgara. Taugaveiki er að breiðast út í Falluja. Ég er að vekja athygli á því að þessir stríðsglæpir eru framdir á ábyrgð Íslendinga, á ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar. Og ég er að furða mig á því að stjórnarmeirihlutinn á þinginu skuli koma fram af öðru eins ábyrgðarleysi og hann gerir í þessu máli.