131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:46]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Maður á að líkindum ekki að hafa uppi gamanmál þegar verið er að ræða jafngrafalvarleg mál og þjóðsönginn. En mér finnst allt í lagi samt að menn slái á léttari strengi.

Ég er sammála hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að það er hóf á íhaldssemi hans. Hann er ekki alltaf mjög íhaldssamur og það er sennilega rétt hjá honum að hann hefur til að bera ákveðið frjálslyndi þó að það komi ekki fram í þessu máli. Hann hefur fullan rétt til þess að hafa þá skoðun.

Ég tek það fram að ég legg ekki þjóðsöng og þjóðfána að jöfnu. Þarna er um tvo þætti að ræða sem báðir eru hluti af þjóðarvitundinni. Fáninn er það klárlega. Það er enginn sem deilir á fánann, þetta er dásamlegur fáni, bæði fallegur og hann skírskotar mjög til hluta sem ... (Gripið fram í: Og ætti að vera í þingsalnum.) ætti að vera í þingsalnum. Ég er sammála því. Hann skírskotar til hluta sem tengjast náttúru Íslands og sögu, vegna þess að hann er jú krosstákn, vísar til grundvallarhluta í sögu okkar og vísar til hluta og þátta sem við stöndum fyrir sem þjóð.

Ég verð hins vegar að segja um þjóðsönginn að hann hefur ekki náð að greypa sig með sama hætti í þjóðarvitundina. Það er vegna þess að það er erfitt að syngja hann, það er erfitt að skilja hann, menn skilja hann ekki fyrr en þeir eru orðnir fullorðnir. Það er erfitt fyrir ungt fólk að ná sömu beintengingu við hann og allir ná þegar búið er að skýra fyrir þeim táknin sem eru að finna í fánanum. Það var mjög auðskilið fyrir þann þingmann sem hér stendur þegar það var í fyrsta skipti í barnaskóla skýrt fyrir honum hvað fáninn stæði fyrir. En ég var orðinn rígfullorðinn þegar mér tókst að syngja þjóðsönginn og þegar mér tókst að skilja hann.