131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Notkun risabora við jarðgangagerð.

292. mál
[18:25]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að þakka hv. þm. Hilmari Gunnlaugssyni fyrir þá ágætu fyrirspurn sem hér liggur fyrir og sem vonandi verður upphaf að því að þessi mál verði rædd hér í þaula. Það er ýmislegt athyglisvert í svörum sem hæstv. samgönguráðherra gaf varðandi þessa fyrirspurn en mér sýnist, miðað við upplýsingar sem ég hef haft af þessu borverki, að varðandi ýmsar upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf sé eðlilegt að setja a.m.k. spurningarmerki við og þær þurfi að kanna frekar. Ég vænti þess að hæstv. samgönguráðherra geti gefið okkur þá yfirlýsingu þegar hann tekur til máls aftur að hann hafi fullan áhuga á því að það verði athugað hvort sú tækni sem hv. fyrirspyrjandi er að spyrja hér um verði ekki könnuð til þrautar og það ýti hugsanlega undir það að við gerum jarðgangaáætlun til nokkuð langs tíma og könnum hvort það geti ekki sparað okkur verulega fjármuni að nýta þessa tækni og auka þar með um leið hraða jarðgangagerðar hér á landi.