131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:42]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er mikið fagnaðarefni að brátt skuli taka til starfa í Reykjanesbæ kröftug og öflug sportakademía sem kemur til með að þjóna ýmsum kröfum og hagsmunum samfélagsins, ekki einungis háskólastarfsemi heldur einnig hvernig hægt er að byggja upp öflugt starf innan íþróttafélaganna og miðla fræðslu. Ég lít afar jákvætt á málið. Ríkið hefur ekki komið á beinan hátt að máli við sportakademíuna heldur hefur ríkið einfaldlega samið við Háskólann í Reykjavík og Háskólinn í Reykjavík hefur síðan samið við sportakademíuna, sem er afar jákvætt mál.

Öðruvísi mér áður brá að þingmenn í þessum góða þingsal mótmæli því þegar háskólastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu er að færa út kvíarnar og dreifa starfsemi sinni. Ég tel afar jákvætt að háskólar á höfuðborgarsvæðinu sjái þá kosti sem önnur svæði en höfuðborgarsvæðið hafa fram að færa og taki undir og reyni að styðja þá uppbyggingu sem m.a. hið öfluga sveitarfélag Reykjanesbær stendur fyrir með því að standa að sportakademíunni. Það sýnir að mínu mati eindreginn vilja, metnað og stórhug hjá Reykjanesbæ, þeim mikla íþróttabæ, hvernig þeir ætla að standa að þessu.

Sveitarfélagið ásamt öðrum öflugum bakhjörlum ætla að styðja vel við sportakademíuna og þá starfsemi sem hún kemur til með að standa fyrir. Hér er um gott fordæmi að ræða þar sem háskóli á höfuðborgarsvæðinu fer í samvinnu við bæði sveitarfélög og fagaðila úti á landi sem gerir það að verkum að öðrum er kleift að starfrækja háskólanám með tiltölulega einföldum og kostnaðarlitlum hætti.