131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veggjöld.

149. mál
[12:16]

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson hafið máls á veggjaldi í Hvalfjarðargöngum. Það þarf ekki að fara frekar yfir þá miklu samgöngubót. Við vitum að ekki eru greidd veggjöld í öðrum göngum en maður veltir fyrir sér hvað verði í framtíðinni. Samkvæmt tillögu til þingsályktunar frá nokkrum sjálfstæðismönnum segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna að úttekt á kostum í vegagerð sem unnt yrði að fjármagna með veggjöldum, …“

Ég spyr: Er það stefna Sjálfstæðisflokksins að taka veggjald af öllum öðrum göngum? Hvað þá með vegi eins og t.d. Reykjanesbrautina, eða tilvonandi Sundabraut?

Fyrirspyrjandi minntist líka á orð ráðherra í þætti um daginn að Spölur ætti að taka til í eigin ranni. Ég vil gjarnan fá nánari útskýringu á hvað ráðherra á nákvæmlega við þarna? Er verið að tala um óráðsíu?