131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:22]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Bjarni Benediktsson erum sammála um að menn eigi að reyna að halda fjárlög eins og hægt er, en þá verðum við líka að gera þá kröfu til fjárlaganna og okkar sem störfum í fjárlaganefnd, að við reynum að hafa fjárlögin eins raunhæf og hægt er hverju sinni, vegna þess að það er ekki hægt að gera forstöðumönnum það aftur og aftur að skammta þeim of naumt og þeir reyna að aðlaga rekstur sinn að því, reyna það sveittir fram eftir miðju ári, fá þá fjáraukalög til að laga reksturinn, en hafa kannski í millitíðinni eytt tugum milljóna í að greiða dráttarvexti.

Hv. þingmaður sagði að á þeim árum sem hann nefndi hefðu frumvörpin skilað 95 milljarða kr. tekjuafgangi. Ég spyr hv. þingmann: Hvar er sá tekjuafgangur á bók? Vegna þess að ef þetta er afgangur á hann að vera til. Ef hann hefur farið í að greiða lífeyrisskuldbindingar hefði átt að áætla fyrir þeim í fjárlögum og a.m.k. í fjáraukalögum. Spurningin er því: Ef frumvörpin hafa skilað 95 milljarða tekjuafgangi á þessu tímabili, hvar er hann?