131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[18:00]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þær 100 kr. sem hv. þingmaður gefur í skyn að lendi á öxlum venjulegra greiðenda á mánuði hverjum eru samt sem áður, þegar saman er talið, 280 millj. kr. á ári. Það eru 280 millj. kr. sem hv. þingmaður ásamt félaga sínum, hv. þm. Gunnari Birgissyni, lofaði að yrðu ekki teknar af skattborgurunum eftir þetta ár. Hann svíkur það loforð. Andstætt sínum eigin orðum taka þeir 280 millj. kr. í nýjan skatt.

Það er sama hvert horft er. Sjálfstæðisflokkurinn er alls staðar í forustu við að heimta aukinn skatt af landsmönnum. Það kom fram í Morgunblaðinu 6. desember að af ríkisins hálfu fari stöðugt stærri hluti landsframleiðslunnar í skattheimtuna. (PHB: Aukin velta.) Hv. þingmaður bendir á að veltan hafi aukist og þess vegna aukist tekjur ríkissjóðs. Það dregur hins vegar úr nauðsyn þess að ráðast í vasa skattborgaranna með þessum hætti líka.

Eins og fram kom í fjölmörgum umsögnum, eins og reyndar var vísað til í umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar árið 2000, er þetta ákaflega umdeild aðferð. Þá var bent á að eðlilegt væri að líta á þetta sem mikilvæga fjárfestingu af ríkisins hálfu sem ríkið ætti að standa straum af með sameiginlegu sjóðum en ekki með sérstöku gjaldi. Hv. þingmaður hefur sjálfur tekið undir að gjaldið er ranglátt. Þess vegna sem vill hann hafa það sem skemmstan tíma og leita annarra leiða. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að koma hingað og halda því fram að það sem hann sé að gera sé í góðu lagi. Þetta er andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins, andstætt hans eigin orðum, andstætt yfirlýsingunni frá árinu 2000.