131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[02:51]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sennilega var rétt að orði komist hjá hv. síðasta ræðumanni hér að göngulagið í meðferð þessa máls hafi verið nokkuð skrykkjótt. Það er þannig vaxið að hér var lagt fram frumvarp sem var sjö greinar ásamt gildistökuákvæði. Eftir vinnu meiri hluta nefndarinnar erum við síðan með breytingartillögur sem að vísu hreyfa ekki við 1. gr. en eru samt átta greinar. Það er því auðséð að málið eins og það kom hér inn í þing þurfti mikillar lagfæringar við og ég held að meiri hlutanum hafi tekist að laga talsvert til í efninu. Það ber það náttúrlega með sér að það skuli nánast ekkert standa eftir af frumvarpinu eins og það kom hér inn. Þess vegna held ég að það sé rétt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að göngulagið í þessu máli hafi verið nokkuð skrykkjótt.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál, virðulegi forseti. Við ákváðum það, sá sem hér stendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að flytja breytingartillögur við þetta mál sem eru fyrst og fremst efnislegar að því leyti að þær eru frestunarákvæði um það hvenær þessi ákvæði eigi að koma til virkni og taka að fullu gildi. Við komumst að þeirri niðurstöðu að þar sem málið væri svo hrátt hefði þurft á þessum fundum nefndarinnar að vinna frumvarpið algjörlega upp á nýtt. Ég held að það hafi bara batnað við það svo að maður hæli nefndarmönnum eitthvað. Við teljum einnig að orkugeiranum veiti ekkert af því að fara yfir þau mál sem verið er að leggja hér upp með og búa sig undir þær breytingar vel og gaumgæfilega, vitandi þá hvað á að taka við.

Þess vegna leggjum við til í þingskjali að eftirfarandi breytingar verði gerðar, með leyfi forseta:

„1. 5. gr. orðist svo: Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum:

a. 2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Frá 1. janúar 2006 skulu allir geta valið þann raforkusala sem þeir kjósa.

b. Í stað ártalsins „2005“ í 2. mgr. kemur: 2006.

2. Á eftir 5. gr. kemur ný grein sem orðist svo: Í stað ártalsins „2005“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögunum kemur: 2006.“

Breytingin er náttúrlega einföld að því leyti til að við erum einfaldlega að leggja til að ákvæði þessara laga komi ekki til framkvæmda fyrr en ári síðar en lagt er til í áliti meiri hlutans. Við teljum skynsamlegt að fresta því ferli og gefa mönnum tækifæri til að laga sig að þessu máli og fara vel yfir það hvort málið í þeim búningi sem það er sé eins og menn telja best á kosið fyrir framtíðina. Þess vegna leggjum við til þetta frestunarákvæði.

Ég ætla ekki að hafa um þetta lengra mál en auðvitað væri fróðlegt að taka um þetta nokkra umræðu ef hæstv. iðnaðarráðherra væri hér stödd sem hún er ekki. Kannski gefst eitthvert tækifæri til þess á morgun því að það er náttúrlega búið að breyta frumvarpinu verulega frá því að hæstv. ráðherra mælti fyrir því.