131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Tilkynningar.

[13:33]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég sá að forseti þingsins ætlaði ekki að svara þessari ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Ég tel að honum sé skylt að gera það, ef hann gerir það ekki samstundis verður hann að tilkynna þá að hann muni gera það síðar. Þetta er algjörlega dæmalaust sem hér er fram komið, þ.e. hvað varðar lengd málsins en ekki hins vegar hvað varðar kurteisi ráðherra gagnvart þingsköpunum og einstökum hv. þingmönnum í þessu efni.

Þeim ber að svara fyrirspurnum á ákveðnum tíma, hæstv. ráðherrum, og þeir eiga að gera það. Þeir eiga að setja slík mál í afgreiðslu hjá sínu fólki og flytja síðan þau svör hér eins fljótt og hægt er. Dæmi eru því miður til um annað og sá grunur læðist að mér að ráðherrar færist undan að svara fyrirspurnum sem þeim þykir óþægilegt að svara. Það er bara hreinlega ekki í þeirra eigin geðþótta, aldrei þessu vant, að gera það því að þingsköp — og ég vænti þess að forseti sé sammála mér um að þau séu í fyrsta lagi í gildi og í öðru lagi mjög mikils verð — setja ráðherrum takmarkanir um þetta efni. Ég fer fram á að forseti svari til um efni þess máls sem hv. þm. Jóhann Ársælsson ræddi, eða a.m.k. boði eitthvert svar um það þá innan tíðar.