131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:48]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mig langaði að nota ræðutímann til að beina spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra varðandi gildandi lög. Hafa þau ekki reynst ágætlega? Kallar eitthvað á að málið fari svo hratt í gegnum þingið? Liggur eitthvað á þessum lögum?

Mér gramdist að vissu leyti að heyra rætt um að þingmenn væru haldnir verkkvíða ef þeir vildu fara yfir öll gögn, m.a. tilskipanir Evrópusambandsins, og skoða málið vel og rækilega. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að læra af reynslunni. Hún þarf ekki að fara langt aftur í tímann heldur gæti hún litið svo sem viku aftur í tímann og skoðað umræðuna um raforkulögin. Þau fóru hratt og örugglega í gegn og þá var mikið fagnað. En síðan þegar átti að framkvæma lögin, eftir hraðmeðferðina fyrir jólin, voru þau ekki beysin og eilíf vandræði. Nú er verið að reyna að bjarga í horn og leysa þau vandamál sem upp hafa komið. Mér finnst að við eigum að taka þessi mál og fara rækilega yfir þau.

Ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á að stjórnarliðar sem sitja í iðnaðarnefnd ættu að vera viðstaddir umræðuna. Þeir ættu að taka þátt í málefnalegum umræðum. Í umræðunni hafa komið fram veigamiklar ábendingar um ýmsar greinar frumvarpsins sem fara þarf yfir, þar sem greinilega hefur orðið handvömm. Í rauninni er ekkert að því að benda á það og furðulegt að hv. þm. Hjálmar Árnason skuli hafa komið í andsvar við því með svo ósmekklegum hætti.

Eins og ég nefndi í andsvari fyrr í umræðunni er frumvarpinu ætlað að treysta séreignarréttinn. Þess vegna tel ég rétt að í meðförum nefndarinnar verði farið vel í gegnum það hvort því fylgi einhver ábyrgð landeigenda, hvort gerð verði krafa til þeirra um að framfylgja ýmsum reglugerðum, m.a. frá Evrópusambandinu, sem geta verið mjög kostnaðarsamar, þ.e. hvernig eigi að mæla mengun og framfylgja öllu því sem Evrópusambandinu dettur í hug að mæla og mæla ekki og skila skýrslum. Því fylgir talsverður kostnaður sem er að sliga sveitarfélögin í landinu.

Hér er m.a. í gildi reglugerð sem er að verða sex ára gömul. Einu sveitarfélögin sem náð hafa að framfylgja þeirri reglugerð, hvað varðar mengun grunnvatns, eru sveitarfélög á Kjósarsvæðinu. Þau hafa það lítið landsvæði að reglugerðin og það þéttbýli sem er þar á bak við ræður við að framfylgja kröfum Evrópusambandsins. Ég tel þetta eitt þeirra verkefna sem dreifbýlið á eftir að eiga í vandræðum með, að framfylgja ýmsum kröfum sem fylgja þessari ábyrgð. Ég tel því ómaksins vert að fara yfir þá hlið málsins.