131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:20]

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Í fyrri hluta umræðu þessa máls var sérstaklega beðið um að hæstv. umhverfisráðherra væri viðstödd. Það var hún við upphaf umræðunnar og til hennar var beint ákveðnum spurningum sem við þingmenn í salnum gengum út frá að yrði svarað og hefðum að sjálfsögðu getað fallist á að víkja frá röð á mælendaskrá ef hæstv. umhverfisráðherra hefði þurft það til að svara þeim spurningum sem fram voru komnar. Ég verð að lýsa furðu minni á því að þetta skuli hafa gengið svona til. Ég held að hér hljóti að hafa orðið einhver mistök við fundarstjórnina eða við meininguna hjá hæstv. umhverfisráðherra sem ég þekki þó að góðu einu í þingstörfum og skil eiginlega ekki af hverju er ekki hér enn eða af hverju hún svaraði a.m.k. ekki þeim spurningum sem beint var til hennar.

Það eru mjög mikilvægar spurningar í málinu sem varða umhverfisráðherrann og afstöðu hennar til málsins og þátttöku hennar í þeim og mér þykir mjög miður að 1. umr. ljúki án þess að hæstv. umhverfisráðherra hafi svarað um þetta efni og treysti því að hún eða menn hennar svari þeim spurningum sem til hennar er beint, annars vegar við meðferð málsins í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd, sem ég held að hljóti að fá málið til umfjöllunar, og hins vegar við 2. umr. Við skulum vona að hæstv. umhverfisráðherra verði við 2. umr. vegna þess að þetta er mál sem henni er beinlínis skylt að taka þátt í.