131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:28]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Svona örlítið hv. þm. Halldóri Blöndal til upplýsingar hef ég starfað í sjávarútvegi um 15–16 ára skeið og var nýlega á Eyjafjarðarsvæðinu, m.a. í viðræðum og góðu sambandi við fiskverkendur og sjómenn á svæðinu. Ég afþakka því námskeið hv. þm. Halldórs Blöndals hvað þetta varðar, svo er víst.

Grundvallaratriðið í þessu máli er að hér verði jöfn samkeppni. Sjálfstæðismenn, þessi hægri flokkur á Íslandi, þessi stóri hægri flokkur á Íslandi sem hefur viljað kenna sig við frjáls viðskipti, drifkraft einstaklingsins, frumkvæðið, vill koma í veg fyrir það, þessi stóri hægri flokkur á Íslandi, að heilbrigð og eðlileg nýliðun verði í okkar stærstu atvinnugrein í dag, sjávarútvegi.

Það er algjört grundvallaratriði að samkeppnismismun fiskvinnslna verði eytt svo að tryggt megi vera að við sækjum fram í matvælaiðnaði með sama hætti og til að mynda Danir, Frakkar, Færeyingar og svo má lengi telja, en flestar þjóðir standa okkur miklu framar þegar kemur að matvælaiðnaði.