131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:35]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal spurði hvernig færi fyrir Grímseyingum ef skilið yrði milli veiða og vinnslu. Nú er mjög lítið af fiski verkað úti í Grímsey. Megnið af því fer í land og stór partur af því er unninn á Ólafsfirði og í Hrísey og á öðrum stöðum á Norðurlandi. Ég veit ekki betur en að í Grímsey hafi verið starfræktur til margra ára fiskmarkaður eða útibú frá fiskmarkaði. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að þeir sem hefðu áhuga á því að verka fisk úti í Grímsey gætu ekki keppt um hráefni þó að við mundum skilja á milli veiða og vinnslu.

Hv. þm. Halldór Blöndal talar mikið um litlu sjávarbyggðirnar og hvernig þær muni endanlega fara fram af þverhnípinu ef við förum þessa leið. Mig langar bara til að minna á að margar þessara byggða eiga nú þegar í miklum vandræðum. Nýjasta dæmið er Stöðvarfjörður þar sem verið er að taka frá þeim kvótann, hráefnið, og loka fiskvinnslunni. Það er ekki vegna þess að verið sé að skilja á milli veiða og vinnslu.