131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:43]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Ég er ánægður með að við hv. þm. Halldór Blöndal séum sammála um að eðlilegt sé að stuðla að því að auka verðmæti íslensks sjávarútvegs. Ég held að það sé nú kannski ágæt niðurstaða af þessum umræðum.

Við erum hins vegar greinilega mjög ósammála um hvaða aðferðir geti leitt til þess að auka verðmæti íslensks sjávarútvegs. Ég átta mig á því eftir þessa umræðu að hv. þm. Halldór Blöndal lítur svo á að eingöngu stór fyrirtæki sem hafa yfir kvóta að ráða geti séð til þess að verðmæti aukist í íslenskum sjávarútvegi. Ég er honum algjörlega ósammála um það þannig að við höfum bara sína skoðunina hvor á því hvernig eigi að vinna að þessum málum.

Við teljum að það megi vinna þessu máli mikinn framgang með því að stuðla að því að verðmyndun íslensks sjávarútvegs fari fram á markaði og við erum tilbúnir að vinna að því og reyna að ná sátt um hvernig það gæti orðið.