131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:06]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Verið að ræða ákaflega mikilvægt mál. Það liggur auðvitað fyrir eftir margar innkomur í umræðu um þessi mál að við í Frjálslynda flokknum höfum ekki viljað fara þá leið að selja grunnnetið með Símanum og styðjum þar af leiðandi heils hugar þá tillögu sem verið er að ræða. Við höfum talið mikið glapræði að ætla að aðhafast það að selja Símann í heilu lagi með grunnnetinu og þeim möguleikum sem þar felast. Það mundi einnig koma í veg fyrir að Íslendingar hvar sem væri á landinu fengju bestu þjónustu sem völ væri á, að þeim væri tryggður aðgangur að góðu fjarskiptakerfi, að þeim væri tryggður aðgangur að háhraðatengingum og að allir landsmenn sætu þar við sama borð.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir minntist á skýrsluna sem Jafet Ólafsson var formaður fyrir og var unnin fyrir samgönguráðuneytið, sem lagði upp með þá leið að reynt skyldi að koma á neti háhraðatengingar sem allir landsmenn hefðu aðgang að. Það er algjörlega rétt að á það var bent að til þess þyrfti að grípa því ella væri hætta á því eins og hv. síðasti ræðumaður lýsti að við færum í þrjár til fjórar útfærslur á dreifikerfi og lokuðumst inni í þeim skápum sem við keyptum aðgang að hverju sinni.

Ég hef komið að því nýlega í ræðustól að það væri ekki björt framtíð fyrir Íslendinga að þurfa að vera í viðskiptum og nánast lokast af við þann eina viðskiptaaðila sem þeir keyptu þjónustu af, hvort sem það væri í háhraðatengingunum, í aðgangi að sjónvarpi eða í aðgangi að símaþjónustu og ættu ekki kost á því nema með verulegum viðbótarkostnaði að hafa aðgang að eðlilegum nútímamáta varðandi fjarskipti hjá öðrum. Ég held að mesta hættan felist í því. Það er mikill hraði á þeirri tækni sem við erum almennt að tala um, tengingunum og háhraðatengingunum, og menn eru að fjárfesta í þessum kerfum.

Ég held að það sé algjörlega rétt sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék að áðan og ég hef áður komið að í þessum ræðustól að það gæti farið svo að Íslendingar ættu aðgang að dýrustu þjónustu á norðurhveli jarðar vegna þess að við værum að koma okkur upp tveim til fjórum kerfum og allir þyrftu að fá kostnaðinn fyrir þeim til baka því það borgar jú enginn þetta nema neytendurnir þegar upp er staðið og kostnaðurinn þyrfti að koma til baka með því að verðleggja þjónustuna til íslenskra neytenda.

Ég held að þetta sé mönnum orðið algjörlega ljóst. Ég veit ekki nákvæmlega hvar mistökin liggja í því að þessi stefnumótun, sem ég tók þannig að samgönguráðuneytið hefði tekið undir á sínum tíma, er í þeim farvegi sem hún virðist vera, að menn stefna hver í sína áttina.

Ég er helst á því að menn hafi hálfpartinn misst þetta frá sér vegna þess að Póst- og fjarskiptastofnun úthlutaði Stöð 2 á sínum tíma 16 örbylgjurásum sem varð til þess að þeir fóru á fulla ferð í það dreifikerfi og með nýja myndlykla o.s.frv.

Einnig er algjörlega ljóst og hefur m.a. komið fram í viðtölum við forsvarsmenn í Og Vodafone að þeir eru ósáttir við samskiptin við Landssímann og aðgengið þar að og að ekki sé verið að tryggja jafna samkeppnisstöðu. Markmiðið sem lagt er upp með í þessari tillögu er að tryggja eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði og uppbyggingu á fjarskiptaneti landsins og að grunnnet Símans verði skilið frá við sölu Símans. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt í þessari stöðu að menn taki þá pólitísku ákvörðun að grunnnet Símans verði ekki selt með Símanum. Það held ég að sé bráðnauðsynlegt að gera og ég vonast til þess að íslensk stjórnvöld, þ.e. þeir sem nú ráða, ríkisstjórnin, séu þó það vel tengd og upplýst að þau sjái að sú stefnumótun sem lagt var upp með á sínum tíma, að selja Símann ásamt dreifikerfinu, fær ekki staðist miðað við hagsmuni þjóðarinnar til næstu framtíðar. Þess vegna ber auðvitað að breyta þeirri ákvörðun og undanskilja grunnnetið sem allra fyrst frá hugsanlegri sölu á Landssímanum.

Þar með held ég að upp komi sú staða að hægt sé að leita leiða til að búa til sameiginlegt fyrirtæki þar sem öll fyrirtækin sjá hag í því að vera með eitt dreifikerfi og eiga aðgang að því hvernig sem eignarhaldið á því verður. Ég gæti alveg hugsað mér að eignarhaldið á dreifikerfinu væri þannig, a.m.k. til að byrja með, að ríkið ætti stóran hlut þó að aðrir aðilar kæmu þar að en yfir þetta yrði síðan sett sérstök stjórn. Það verður svo að ráðast þegar fram í sækir hvort menn vilja selja hlut í því dreifikerfi til annarra en ég held að þetta sé alveg bráðnauðsynlegt mál að vinna að.

Ef allt um þrýtur tel ég að það yrði hreinlega að fara þá leið sem við fórum í raforkulögunum, að stofna sérfyrirtæki í eigu íslenska ríkisins, í eigu allra Íslendinga, sem ætti það dreifikerfi sem Síminn hefur nú. Opnaður verði alger aðgangur og allir eigi aðgang þar að og reyna verði þá á það hvort þeir aðilar sem eru að leggja út sín nýju dreifikerfi sjái ekki hag í því að versla við það fyrirtæki ef boðinn væri aðgangur með eðlilegum viðskiptakjörum og eðlilegri þjónustu, því það er jú það sem við viljum öll fá og er auðvitað líka það sem íslenska þjóðin vill fá og á rétt á. Við, hv. alþingismenn, eigum að sjá til þess að Íslendingar verði ekki að kaupa dýrustu fjarskiptaþjónustu sem þekkist á norðurhveli jarðar í framtíðinni.