131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:39]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að hann furðaði sig mjög á stöðu mála varðandi samkeppnismál hjá Símanum. Hið sama hefur komið fram í máli fleiri þingmanna í kvöld. Hv. þingmenn hafa verið spurðir: Hve mörg kærumál liggja hjá Póst- og fjarskiptastofnun og hver er staðan almennt varðandi internetþjónustu sem veitt er af öðrum fyrirtækjum en Símanum? En þeir hafa ekki getað gefið nein svör.

Ég verð að segja að þetta mál er dálítið sérkennilega sett fram. Ég skil háttvirtan 1. flutningsmann málsins, hið prentaða mál, þegar hann las upp úr textanum og fór yfir efni tillögunnar. Síðan koma aðrir þingmenn með allt aðrar meiningar. En þeir geta ekki sagt hvað þeir eru í raun að þrasa um.

Í ljós kemur að eitt slíkt mál liggur hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Um það standa deilur en ekki alvarlegar. Sé litið til annarra aðila en Símans hver er þá staðan þar á háhraðanetinu? 48% þeirra sem nota netið fá þá þjónustu hjá öðrum en Símanum. Síminn hefur látið tæpan helming háhraðatenginganna til samkeppnisaðilanna.

Ég er sannfærður um að sala Símans muni stuðla enn frekar að betri þróun, eins og hraðinn hefur verið á þessu máli hjá okkur Íslendingum. Í málum sem þessum tökum við aldrei fet heldur tökum við þau í stökkum. Með lögum þeim sem við settum um fjarskipti hefur verið komið í veg fyrir að eitt fyrirtæki geti misnotað aðstöðu sína. Það er mergurinn málsins.