131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:46]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem í pontu til að halda því til haga og árétta það að ég nefndi Samkeppnisstofnun ekki einu orði í andsvari mínu áðan. Ég vil, þó að ég sé hvorki sérstakur sérfræðingur á sviði fjarskipta og þaðan af síður talsmaður flokks míns í þeim málum, halda því til haga sem fróðleik við hv. þm. Sigurjón Þórðarson að eftirlit með rekstri fjarskiptaþjónustu til að tryggja eðlilega samkeppni er í höndum tveggja stofnana, önnur er Samkeppnisstofnun og hin er Póst- og fjarskiptastofnun.

Það sem lýtur að því sem málið gengur út á og að málflutningi hv. samfylkingarþingmanna að Landssíminn beiti aðgangshindrunum, tæknilegum og með verðlagningu, það heyrir beint undir Póst- og fjarskiptastofnun. Það er sú stofnun sem er til umræðu og viðkemur þessu þingmáli. Ég nefndi aldrei Samkeppnisstofnun á nafn.

Ég trúi því ekki að einhver ætli að halda því fram að hin fjarskiptafyrirtækin sem eru í samkeppni við Landssímann láti það yfir sig ganga að þau séu beitt aðgangshindrunum, tæknilegum eða með verðlagningu. Þau hljóta að leita til þess aðila, þeirrar stofnunar sem að lögum á að taka á málinu og úrskurða. Þau hljóta að leita þangað eftir leiðréttingu sinni og mér er ekki kunnugt um að það sé nokkur bið eftir úrskurðum frá þeirri stofnun. Það er eitt mál óafgreitt þar núna og ég veit ekki til þess að það sé nokkur bið frá þeirri stofnun.

Varðandi meinta einokunarstöðu Símans þá snýst málið ekki um að vera markaðsráðandi. Það snýst um það hvort verið er að misnota markaðsráðandi stöðu. Með fjarskiptalögunum, sem mig minnir að allir flokkar á þingi hafi tekið þátt í að samþykkja um að Síminn veitti öðrum fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði þessa þjónustu, þá komum við á fót þeirri stofnun sem hefur úrskurðarvald um þetta og fyrirtæki leita leiðréttingar hjá.