131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:11]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í því felst ákveðin hætta þegar menn þykjast hafa séð lausnir framtíðarinnar. Hv. þingmaður sagði að ljósleiðarinn væri framtíðin. Er það svo? Ég er ekkert viss. Það eru að koma fram lausnir núna sem hugsanlega gera það að verkum að ljósleiðarinn verður hreinlega úreltur vegna þess að hann er mjög dýr. Hann er mjög dýr á endastöðinni þar sem hann mætir heimilinu. (Gripið fram í.)

Ég er því ekkert viss um að sú staðlaða lausn sé á endanum það sem framtíðin muni gefa okkur í gagnaflutningum. Þetta er nefnilega akkúrat það sem samkeppnin laðar fram. Hún laðar fram nýja tækni og nýjar lausnir en hins vegar stöðlun, þ.e. að gera eitthvað að opinberu kerfi, opinberu dreifikerfi eins og gert er í raforkunni, stoppar alla framþróun — þar koma engar nýjar lausnir — einmitt með hliðsjón af sokknum kostnaði eins og í koparleiðslunum og núverandi ljósleiðarakerfi.