131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Staða útflutnings- og samkeppnisgreina.

[14:16]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sú staða sem núna er uppi í íslensku efnahagslífi á ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Það var auðvitað alveg fyrir séð og talsvert mikið rætt fyrir síðustu kosningar að sú innspýting í hagkerfið sem yrði vegna framkvæmdanna við Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi mundi fela í sér talsvert mikinn hagstjórnarvanda og hagstjórnin yrði mjög vandasöm í kjölfar þeirrar innspýtingar. Til viðbótar við þá innspýtingu hefur komið innstreymi á erlendum gjaldeyri af öðrum ástæðum eins og hér kom fram og það nægir bara að nefna í því sambandi allar lántökur bankanna erlendis og sú innspýting sem hefur orðið í tengslum við húsnæðiskerfið. En við vissum sem sagt fyrir fram að hagstjórnin yrði vandasöm og í þeirri hagstjórn eru þrír aðilar sem skipta meginmáli. Það er í fyrsta lagi aðilar vinnumarkaðarins og forsætisráðherra nefndi þá ekki sérstaklega, sem skipta auðvitað verulegu máli varðandi hagstjórnina. Þar tel ég að menn hafi sýnt mjög mikla ábyrgð og verkalýðshreyfingin hafi sýnt mikla ábyrgð í kjarasamningum sínum og sýnist nú sumum að hún hafi verið um of ábyrg þar.

Annar aðili er Seðlabankinn sem fer með stjórn peningamála og hann hefur notað það fyrirtæki sem hann hefur sem eru stýrivextirnir og eru náttúrlega orðnir geysilega háir eða um 10%. Þriðji aðilinn er svo ríkisstjórnin. Ekki er hægt að segja að ríkisstjórnin hafi tekið fast á málum. Það er engin tiltrú á hagræðingarkröfu sem gerð hefur verið hér, skattalækkanir hafa verið, ráðist hefur verið í miklar framkvæmdir og ekki hefur verið bent á neinar nýjar sparnaðarleiðir fyrir almenning til að mæta þessu aukna innstreymi á fjármagni inn í hagkerfið. Ég tel því að ríkisstjórnin hafi að mörgu leyti brugðist skyldu sinni í þessu máli og hætta á sé því að ef menn grípa ekki til aðgerða getum við lent í mjög erfiðri dýfu þegar þessari uppsveiflu lýkur.

Ég tel að fyrirtækin séu farin að finna mjög fyrir þessu. Þau finna mjög fyrir háu raungengi og það kemur fyrst fyrir í sjávarútveginum, í fiskvinnslunni, og það er farið að koma fram líka í ýmsum iðngreinum, þeim sem eru kannski viðkvæmastar fyrir þessu eins og matvælaframleiðslan. Aðrar iðngreinar, t.d. ferðaþjónustan, eru farnar að bregðast við með því auðvitað að reyna að draga úr tilkostnaði sínum með því að hagræða, með því að segja upp fólki og jafnvel ráða ódýrt erlent vinnuafl í stað þeirra Íslendinga sem sagt er upp. Þetta geta þeir gert eða þá hitt að flytja framleiðsluna sína annað, til annarra landa þar sem vinnuaflið er ódýrara og það hafa þær líka gert.

Forsætisráðherra sagði að þetta væri tímabundinn vandi og að vissu leyti er hann tímabundinn. En hins vegar held ég að það sé alveg ljóst að þegar fram líða stundir munum við búa við hærra raungengi til frambúðar en við höfum þekkt á undanförnum áratugum og vissulega þarf atvinnulífið að aðlagast því með því að tæknivæðast og með því að endurmennta fólk og við þurfum að fjárfesta verulega í menntakerfinu. Hins vegar skiptir líka máli að menn skoði hvað við getum gert þegar til framtíðar er litið til að forðast þær sveiflur sem hafa verið í hagkerfinu og það eru ef til vill þær sem er erfiðast að búa við. Það er ekki erfiðast kannski að búa við hærra gengi en við höfum gert heldur sveiflurnar. Í því sambandi hljótum við að horfa á kostina sem fylgja upptöku evrunnar, við hljótum að þurfa að skoða það líka í samhengi við þær aðgerðir sem menn velta fyrir sér í hagstjórninni.

Ég vil í því sambandi benda á nýja skýrslu sem er komin út í Seðlabankanum sem heitir einmitt Úti í kuldanum og er um verslun og viðskipti á Íslandi utan Evrópusambandsins. Niðurstaðan úr þeirri skýrslu er sú að viðskipti okkar við lönd innan Myntbandalagsins gætu aukist um 60% ef við værum þar aðilar og að þjóðarframleiðsla gæti aukist um 4% við aðild að Myntbandalaginu. Þetta hljótum við að þurfa að taka til alvarlegrar skoðunar, ekki síður en aðrar og hefðbundnari aðgerðir sem tengjast efnahagsmálunum. Hins vegar er erfitt við það að búa að menn hafa verið mjög andsnúnir því að skoða þetta af einhverri alvöru og m.a. sagði fyrrverandi forsætisráðherra að hin nýja Evrópumynt hefði runnið alveg á rassinn þegar hún var tekin í notkun. Hún væri veikari mynt en kúbanski pesetinn og norður-kóreski daminn eins og hann orðaði það á þeim tíma. Og þegar menn hafa slíkt viðhorf er ekki við því að búast að mál séu skoðuð af mikilli alvöru.