131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur foreldra vegna veikinda barna.

139. mál
[12:14]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna innilega yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Þetta er merkur dagur og gríðarlegur áfangi í baráttumálum aðstandenda langveikra barna sem lengi hafa beðið eftir úrlausn í þessum málum og sjá þetta nú rætast á þessum degi. Hér er stigið stórt skref, alls ekki nægjanlega stórt en mjög merkur áfangi í baráttunni sem ég fagna mjög vegna þess að hjá foreldrum langveikra barna hafa verið miklir félagslegir og fjárhagslegir erfiðleikar eins og ég nefndi í máli mínu áðan. Öryggi foreldra langveikra barna hefur verið ógnað vegna þess að hið opinbera hefur ekki komið til móts við þá í veikindum þeirra þannig að það er virkilega ástæða til að fagna þessu.

Ég vænti þess að greiðslurnar sem verið er að tala um í þrjá mánuði komi til viðbótar umönnunargreiðslum og skerði þær ekki. Ég tel mikilvægt að fá það fram og líka mikilvægt að styrktar- og sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna dragi ekki úr þeim stuðningi sem þeir hafa veitt langveikum börnum þegar ríkið kemur loksins myndarlega að málinu eins og hér er gert.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær má vænta þess að fram komi frumvarp um þetta á þingi þannig að hægt sé að lögfesta þetta og er ekki hugmynd ráðherra að lögin taki gildi þegar í stað þannig að foreldrar langveikra barna þurfi ekki að bíða lengur en orðið er? Um þingsályktunartillöguna sem vinnan er sprottin úr var breið samstaða á Alþingi. Þingmenn allra flokka fluttu þetta mál um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Hún var að vísu miklu víðtækari og náði til fleiri en langveikra barna þannig að ég tek því þannig að við séum að stíga fyrsta mikilvæga skrefið á þeirri leið að tryggja almennt aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna og ég tek sannarlega undir að þetta á að vera í forgangi eins og ráðherrann hefur lagt þetta upp.