131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Hámarkshraði á tvöfaldri Reykjanesbraut.

452. mál
[14:24]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður sem spunnist hafa vegna þessarar fyrirspurnar. Ég tel mikilvægt að þingmenn taki þátt í umræðum um umferðaröryggismál. Það er alvarlegt hvernig slysum hefur fjölgað og hve mörg alvarleg slys verða á þjóðvegum landsins. Við eigum að leggja okkur fram um að koma í veg fyrir þau.

Ég hef gert grein fyrir áformum okkar um sérstakar umferðaröryggisaðgerðir, annars vegar með því að bæta vegakerfið en fyrst og fremst þurfum við að beina sjónum okkar að ökumönnum, fá ökumenn til að gæta sín í umferðinni. Það liggur fyrir að alvarlegustu slysin verða vegna þess að of hratt er ekið, vegna þess að bílbeltin eru ekki notuð eða vegna þess að ökumenn eru undir áhrifum áfengis. Þar er af mörgu að taka og við munum að sjálfsögðu leggja okkur fram um að stuðla að auknu öryggi í umferðinni.

Ég held að það sé hárrétt sem hér kom fram, að ekki þola allir kaflar á þjóðvegakerfinu hámarkshraða þrátt fyrir bundið slitlag. Bundið slitlag leysir ekki allan vanda og að því þarf að huga. Hluti af því umferðaröryggisátaki og þeim aðgerðum sem samgönguráðuneytið stendur fyrir um þessar mundir er að reyna að brýna fyrir ökumönnum að taka tillit til aðstæðna, m.a. með breytilegum hámarkshraða eins og ég nefndi fyrr.