131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Samstarf við Rauða kross Íslands um móttöku flóttamannahópa.

373. mál
[13:03]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn minni er beint til hæstv. félagsmálaráðherra og lýtur að samstarfi stjórnvalda og Rauða kross Íslands um móttöku flóttamannahópa.

Í fyrsta lagi spyr ég hverju það sæti að samningur ráðuneytisins við Rauða kross Íslands um móttöku hópa flóttamanna hafi ekki verið endurnýjaður.

Samningur af þessu tagi var gerður árið 1996 til fimm ára en síðan endurnýjaður munnlega til árs í senn. Samkvæmt heimildum mínum var búið að gera drög að endurnýjuðum samningi skömmu fyrir kosningarnar 2003 og að því er mér hefur verið tjáð þá hafi hæstv. fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra ekki viljað ljúka málinu rétt fyrir kosningar. Þetta var á árinu 2003, síðan rann það ár til enda og 2004 kom. Nú erum við komin fram á árið 2005, en ekki hefur verið gengið frá þessum samningi. Hverjar eru skýringarnar?

Í öðru lagi er spurt um hvort hæstv. ráðherra hafi markað stefnu í móttöku flóttamannahópa og ef svo er, hver sú stefna sé.

Það er mikilvægt að stefna okkar sé skýr í þessum efnum. Íslendingar hafa vissulega tekið á móti flóttamönnum í tímans rás, en það hefur verið tilviljanakennt og breytilegt frá ári til árs hvernig þessum málum er háttað. Sum árin hefur ekki verið tekið á móti neinum flóttamönnum þótt yfirleitt hafi það þó verið gert, stundum fáum, í öðrum tilvikum mörgum eins og árið 1999 þegar fjöldi flóttamanna var hér hvað mestur á síðari árum.

Ég tel tvíþætta ástæðu fyrir því að hafa skýra stefnu í þessum efnum.

Í fyrsta lagi er það því miður svo að aldrei er skortur á flóttamönnum í heiminum. Við eigum að axla skyldur okkar í samfélagi þjóðanna og móta um það skýra stefnu um hvernig við berum okkur að í því efni.

Í öðru lagi þurfa þessi mál að vera í skipulegum farvegi, bæði okkar sjálfra vegna og vegna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem annast skipulagningu á heimsvísu. Hún þarf að vita að hverju hún geti gengið, hvaða úrræði eru til boða hverju sinni. Það mun vera svo að ein tíu lönd í heiminum hafa skuldbundið sig til að taka tiltekinn fjölda, fastan fjölda flóttamanna árlega. Við eigum að sjálfsögðu að vera í þeim hópi. Þarna eru Norðurlöndin, Kanada, Sviss, Ástralía og fleiri ríki. Við eigum að vera í þeim hópi.

Þá er ég kominn að þriðju og síðustu spurningunni sem er á þessa lund:

Hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna leitað eftir því að Ísland bætist í hóp ríkja sem setja sér markmið um tiltekinn lágmarksfjölda flóttamanna sem tekið er við?