131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Grunnnet fjarskipta.

531. mál
[15:06]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Meginstaðreyndin er sú að Landssíminn, Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun eiga meginnet fjarskipta í landinu, allt fyrirtæki í opinberri eigu. Öll viljum við hafa sem mesta hagræðingu á hlutunum. Við viljum líka að þjónustan sé sem best og nái til allra landsmanna. Það skortir enn mikið á að fjarskiptaþjónustan sé góð og fullnægjandi út um allt land, t.d. GSM-þjónustan.

Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir í Morgunblaðinu 13. febrúar sl., með leyfi forseta:

„Það getur aldrei verið hagkvæmt að leggja tvö ljósleiðarakerfi hlið við hlið þegar neytandinn nýtir aldrei nema annað þeirra.“

En neytandinn mun borga. Hvaða skynsemi væri í því ef Eimskip legði veg í kringum landið og svo kæmi Samskip með annan veg. Mundi það flýta fyrir eða bæta vegakerfið í landinu? Þetta er að gerast núna. Verið er að leggja ljósleiðara í hús t.d. í Reykjavík frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í opinberri eigu, og frá Landssímanum, sem er líka í opinberri eigu. Hvaða heilvita brú er í svona löguðu? (Gripið fram í.) Ég spyr ráðherra fjarskiptamála, sem er ábyrgðaraðili fyrir þennan málaflokk, hvort hann vilji ekki beita sér fyrir að koma þessu saman. Eða ætlar ráðherrann virkilega að samþykkja að fjarskiptakerfi landsins verði selt? Mundi hann samþykkja að þjóðvegakerfið væri selt? Nei. (Gripið fram í: Hvað eru mörg fjarskiptakerfi í landinu?) Það eru tvær meginfjarskiptalagnir í landinu og mér finnst hv. þingmenn vera mjög ókunnugir um stöðu mála, meira að segja þó þeir séu fyrrv. samgönguráðherrar, og ættu að setja sig inn í málin áður en þeir blanda sér í umræðuna, ég tala ekki um með frammíköllum.