131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:22]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að enn þá hafi ekki komið fram sannfærandi rök frá ráðuneytinu fyrir því að vinda ofan af því sem allsherjarnefnd var sammála um. Ekkert í málflutningi þeirra hefur breyst. Á hinn bóginn sagði fulltrúi ráðuneytisins m.a. að það hefði komið honum á óvart hve fáar gerðir ættu í hlut.

Ég sé ekki nokkur einustu rök fyrir því að fara þessa leið. Deilan snerist aldrei um C-deildina en hins vegar vildi allsherjarnefnd taka af allan vafa um A- og B-deildina á sínum tíma. Í mínum huga hafa ekki komið fram nein rök sem breyta því. Það er verið að heimila að opna fyrir þann möguleika að EES-gerðir séu innleiddar í íslensk lög óþýddar. Það tel ég mjög vafasamt að gera, virðulegi forseti, og vil í raun ekki veita frá því nokkra undanþágu.

Við erum ekki sammála um þetta, ég og hv. þm. Bjarni Benediktsson. Hann hefur sannfærst um að rétt sé að vinda örlítið ofan af því sem allsherjarnefnd kom sér saman um í nefndaráliti sínu og breytingartillögunni við 2. umr. Ég er ekki sannfærð um það en ég er jafnsannfærð, eftir sem áður, um að texti þessara laga hefði verið réttari í þeirri mynd sem við samþykktum hann við 2. umr. Ég leyfi mér að efast stórlega um að hann standist í þeirri mynd sem hann yrði í með umræddri breytingu, m.a. með tilliti til þess hvort setja megi slíka heimild í almenn lög þegar skýrt er kveðið á um það í sérlögum á grundvelli milliríkjasamnings að gerðirnar skuli þýddar. Hv. þingmaður hefur ekki heldur svarað skýrt spurningunni um hvort hann telji slíka aðgerð standast.