131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:05]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað hefur hv. þm. Dagný Jónsdóttir heyrt skakkt áðan, ef þannig má orða, þegar ég talaði um stjórnir og hagsmuni eigenda í hlutafélögum. Þá var ég að tala um að í hlutafélögum almennt ráða auðvitað hagsmunir eigenda för í stjórnum. Það sem ég talaði um að hættan liggi er að það er ekkert sem tryggir það í þessu máli að svo muni ekki verða í framtíðinni í stjórn þessa skóla vegna þess að þarna er um hlutabréf að ræða sem ganga kaupum og sölum. Við vitum ekkert hvaða aðstæður verða uppi eftir nokkur ár og hvar þessi hlutabréf muni enda, það er það sem ég var að nefna, það er ekkert sem tryggir það.

Þetta nefndi ég sem eina af hættunum við það að taka einkahlutafélagsformið fram yfir sjálfseignarstofnunarformið þar sem þessi hætta er alls ekki fyrir hendi. Það er það sem ég átti við, hv. þingmaður, ekki það að hagsmunir þessara aðila sem nú koma að stofnuninni muni ráð för skólans, það er alls ekki það sem ég átti við. Ég treysti þeim fullkomlega til að reka skólann ágætlega, þess vegna líka lögðum við fram breytingartillögu um að við gætum stutt þetta mál ef um sjálfseignarstofnun væri að ræða þar sem þessir aðilar kæmu að.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því og ég sagði það í ræðu minni að þetta er vond staða fyrir skólann og fyrir skólana báða, bæði fyrir kennarana og nemendurna, eins og er. Þess vegna tel ég, og hef nefnt þó nokkur atriði, að málið hefði þurft að vera miklu betur undirbúið og skapa hefði þurft miklu meiri sátt einmitt vegna þess fjölda fólks sem um ræðir og hve miklir hagsmunir nemenda og kennara eru í húfi.