131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:31]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna fyrirætlana um sölu Símans. Ég held að okkur öllum sé fullljóst að mikilvægi fjarskiptanetsins er eins og vegakerfisins, það tengir landsmenn saman og skapar grundvöll fyrir hin fjölbreyttu samskipti sem eru grunnur jafnræðis í búsetu og atvinnurekstri um allt land.

Það kemur líka fram að almenningur hefur mjög sterkar skoðanir á þessu máli. Í skoðanakönnun sem Gallup vann árið 2002 fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð kom fram að meira en 60% þjóðarinnar vildu að Síminn yrði áfram í opinberri eigu og einungis 39% vildu þá að hann yrði seldur. Yfir 70% íbúa á landsbyggðinni voru andvíg því að Síminn yrði seldur. Í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði í febrúar sl. voru yfir 70% andvíg sölu grunnnets fjarskipta Símans en tæplega 16% voru hlynnt því að það yrði selt. Í könnun sem Gallup gerði og birti í gær kemur fram að 46% eru andvíg sölu Símans og 42% fylgjandi. Þegar spurt er um sölu grunnnetsins kemur í ljós að 76% eru andvíg sölu grunnnetsins en einungis 14% eru því hlynnt. Ætla má þegar spurt er um grunnnetið að fólk sé að taka afstöðu til hins samfélagslega hluta fjarskiptaþjónustunnar sem það flokkar sem grunnþjónustu sem eigi að vera í eigu þjóðarinnar.

Líta má svo á út frá þessum skoðanakönnunum að andstaða vaxi meðal þjóðarinnar við sölu fjarskiptakerfis Símans. Heimild Alþingis til sölu Símans er orðin nokkurra ára gömul. Tímarnir hafa breyst og krafa þjóðarinnar um að hann verði áfram í eigu þjóðarinnar hefur líka styrkst. Það er líka athyglisvert að sjá í þessum könnunum að einungis lítill minni hluti framsóknarmanna vill að Síminn sé seldur. Mikill meiri hluti er andvígur því að Síminn sé seldur. (Forseti hringir.) Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra sem fer með þessi mál nú hvort ekki sé ráð að endurskoða ákvörðun þingsins um sölu Símans og fara betur ofan í málin.