131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

598. mál
[13:17]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns var aflað upplýsinga frá embætti ríkislögreglustjóra. Í svörum embættisins kemur fram að ef fyrir hendi er rökstuddur grunur um að ökumaður vélknúins ökutækis sé undir áhrifum örvandi eða deyfandi efna, sbr. 44. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er hann handtekinn og færður til læknisskoðunar og töku á blóð- og þvagsýni eftir því sem ástæða þykir til. Læknir framkvæmir í kjölfarið hæfnispróf á ökumanni og gerir skýrslu þar um. Þá er fengin matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.

Jafnframt er ítarlega skráð af lögreglu í frumskýrslu sú háttsemi eða atvik í fari ökumanns sem vöktu grunsemdir um áhrif fíkniefna eða lyfja við akstur. Í reglum ríkislögreglustjórans um töku öndunarsýna frá 15. september 2003 er þess getið að sýni niðurstaða öndunarprófs eða öndunarsýnis óeðlilega lága niðurstöðu miðað við ástand grunaðs eða hegðun hans kunni slíkt að vera vísbending um að hann sé undir áhrifum örvandi eða deyfandi efna og því sé ástæða til að færa viðkomandi til töku á blóð- og þvagsýni svo og til læknisrannsóknar þar sem mat er lagt á hæfni grunaðs til að stjórna vélknúnu ökutæki þegar um ætlað umferðarlagabrot er að ræða. Ekki eru fyrir hendi sömu möguleikar eða mælikvarðar til að meta hæfni ökumanns vegna aksturs undir áhrifum lyfja eða fíkniefna, sbr. 44. gr. umferðarlaga, og er varðandi ölvun við akstur, sbr. 45. gr. sömu laga, þar sem byggt er á ákveðnu áfengismagni í blóði ökumanns.

Árangur lögreglu í þessum málum virðist engu að síður góður. Má í því sambandi m.a. vísa til niðurstaðna athugunar Ástu Stefánsdóttur, fulltrúa sýslumannsins á Selfossi, en hún gerði athugun á þessu fyrir stuttu og kynnti niðurstöður sínar á fundi samstarfsnefndar lögreglu á Suðvesturlandi í desember á síðasta ári. Athugun hennar tók raunar til allra brota á 44. gr. umferðarlaga en þar er auk aksturs undir áhrifum lyfja og fíkniefna fjallað um önnur atriði sem áhrif geta haft á færni ökumanna til aksturs.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra voru á síðasta ári 88 brot skráð í málaskrá þar sem grunur var um að ökumaður væri ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega vegna örvandi eða deyfandi efna. Í 70 tilvikum var tekin blóð- og þvagprufa. Af þessum 88 málum eru 48 enn til meðferðar hjá lögreglu eða ákæruvaldi og í einu máli var rannsókn hætt. Af þeim 39 málum sem er lokið var í fjórum tilvikum ákært fyrir ölvunarakstur í stað lyfjaaksturs og sjö lauk með sýknu. 28 málum var lokið með sakfellingu og sviptingu ökuréttinda og er meðallengd sviptinga tæplega níu mánuðir. Mikill munur er þó á lengd sviptinga frá þremur mánuðum til 48 mánaða en flestir voru sviptir í 4–6 mánuði.