131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:01]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Frumvarp þetta breytir ákvæðum almannatryggingalaga um þátttöku ríkisins í greiðslum vegna tannlækninga.

Alþingi samþykkti 20. maí 2001 heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Meðal forgangsverkefna í áætluninni var bætt tannheilsa landsmanna. Skýr markmið voru sett fyrir ungmenni og eldri borgara. Þau voru annars vegar að lækka tíðni tanntaps í eldri borgurum og það markmið sett að meira en helmingur fólks 65 ára og eldra hafi a.m.k. 20 tennur í biti.

Tryggingastofnun ríkisins er aðeins heimilt að endurgreiða tannlæknakostnað við laus tanngervi en ekki föst. Ákvæði almannatryggingalaga um þátttöku ríkisins í greiðslum vegna tannlækninga veita því ekki svigrúm til að koma til móts við markmið heilbrigðisáætlunar um tannheilsu eldri borgara og samræmast ekki breyttum aðstæðum. Frumvarpið miðar að því að koma til móts við breyttar aðstæður eldri borgara. Þróunin hefur verið sú að þeim eldri borgurum fjölgar sem halda eigin tönnum fram á síðustu æviár og er frumvarpinu ætlað að koma til móts við þarfir þeirra.

Með frumvarpi þessu eru ákvæði almannatryggingalaga gerð sveigjanlegri og ráðherra auðveldað að framfylgja stefnumörkun sinni í tannverndarmálum þar sem áhersla er lögð á að gera eldri borgurum kleift að viðhalda heilbrigði munnhols eins lengi og kostur er. Í samræmi við það er gert ráð fyrir að ákvæði um greiðsluþátttöku verði í reglugerð. Með því er ekki gert ráð fyrir að takmarka rétt sjúklinga til endurgreiðslu vegna tannlækninga.

Með frumvarpinu fylgja drög að nýrri reglugerð um kostnaðarþátttöku ríkisins fyrir tannlæknaþjónustu. Reglugerðin er að mestu samhljóða núgildandi reglugerð nr. 815/2002 en breytingar hafa verið feitletraðar. Rétt er að benda á að heimilt er að taka þátt í kostnaði við gullfyllingar, krónur og brýr fyrir börn og unglinga undir 18 ára aldri vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Greiðsluþátttakan í þeim tilvikum byggir á 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, en ekki er lagt til í frumvarpinu að þeirri grein laganna verði breytt.

Tryggingastofnun ríkisins hefur metið það svo að fjárveiting ársins 2005 til greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannlækninga dugi til að taka þátt í greiðslu samkvæmt þeim reglum sem settar eru með reglugerðinni hjá allt að eitt þúsund sjúklingum. Telur stofnunin að eftir 4% hækkun á gjaldskrá vegna tannlækninga fyrir árið 2005 séu 45 millj. kr. eftir til að koma til móts við breytingar sem frumvarpið felur í sér.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé mikilvægt skref til að bæta þjónustu við eldri borgara á sviði tannlækninga. Breytingar eru nauðsynlegar til að koma til móts við breyttar aðstæður meðal eldra fólks sem heldur í auknum mæli eigin tönnum fram á síðustu æviár. Heilbrigði munnhols hefur m.a. áhrif á tal, næringu og almenna vellíðan og er því mikilvægur hluti af almennu heilbrigði fólks.

Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.