131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:53]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan er staða aldraðra mjög mismunandi innbyrðis, bæði varðandi eignir og tekjur. Margir öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafa mörg hundruð þúsund í tekjur á mánuði og þeir fá 50% af útgjöldum endurgreidd samkvæmt frumvarpinu. Maður sem hins vegar fellur ekki í þennan flokk, er vinnandi, skal borga þetta með sköttunum sínum en hann fær ekki þessar bætur. Hann getur verið með miklu lægri laun, ég minni á það að fólk sem fær borgað samkvæmt taxta Eflingar er með 120 þús. kr. á mánuði í hæsta taxta. (ÁRJ: Við þurfum kannski að koma til móts við það.) Það er verið að borga út laun sem eru langt undir því sem sumir eru með í lífeyri þannig að ég er nú hræddur um að tekjujöfnunarhlutinn blikni þegar menn fara að skoða málið nákvæmlega. (Gripið fram í.)

Ég legg til að hv. heilbrigðisnefnd skoði þetta mál mjög varlega og verði ekki svona yfir sig hrifin af auknum útgjöldum ríkissjóðs.