131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:35]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að frábiðja einhvern úrskurð frá forseta um þetta málefni núna. Tildrögin eru þau að hv. þm. Jón Bjarnason óskaði eftir utandagskrárumræðu um málið og vildi beina fyrirspurn sinni til hæstv. iðnaðarráðherra sem auk þess hefur tjáð sig um þetta mál í fjölmiðlum. Það er eðlilegt. Þetta heyrir undir verksvið hæstv. ráðherra sem auk þess er byggðamálaráðherra landsins. Síðar komu fram óskir frá öðrum þingmönnum, hv. þm. Kristjáni Möller og Birki Jónssyni, til annarra ráðherra. Á fundi formanna þingflokkanna í gær hafði hæstv. forseti þingsins tekið vel í það að umræðan sem hv. þm. Jón Bjarnason hafði óskað eftir færi fram á miðvikudag, á morgun, en jafnframt kom í ljós að hæstv. iðnaðarráðherra hefði efasemdir um að málið heyrði undir sig.

Við vildum hins vegar, og viljum, að þessi umræða fari fram, hvort sem hæstv. iðnaðarráðherra treystir sér til að vera við hana eða ekki. Þetta mál heyrir undir iðnaðarráðuneytið, undir það ráðuneyti sem fer með iðnaðar- og byggðamál, og það er mjög óeðlilegt að stefna því samstarfi sem er innan þingsins um utandagskrárumræður og um þingsköpin almennt í tvísýnu og uppnám eins og hér er verið að gera. Ég lýsi því furðu á þessum vinnubrögðum.