131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:58]

Einar Karl Haraldsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Marðar Árnasonar helgaðist dálítið af því að hann hafði ekki hlýtt á þær umræður sem hér voru áður, því þar var einmitt af ýmsum hv. ræðumönnum sem tóku þátt í henni vikið að þessu, að ef ráðherrar tækju ekki þátt í og væru sviptir atkvæðisrétti á þingi og aðrir kæmu í þeirra stað, þá hallaði á stjórnarandstöðu. Það þyrfti að finna leiðir til að styrkja stjórnarandstöðuna í slíkri stöðu og þingmenn ræddu ýmsar leiðir til þess. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki skoðað það svo gjörla enda ekki þingreyndur maður og kannski aðrir færari um að gera þar skynsamlegri tillögur en ég.