131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Sala áfengis og tóbaks.

241. mál
[17:44]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka 1. flutningsmanni þessa frumvarps, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir ágæta ræðu þegar hann mælti fyrir frumvarpinu og kom inn á öll helstu sjónarmið sem styðja þetta mál. Málið er svo sem ekki nýtt af nálinni eins og hv. þingmaður nefndi. Það hefur lengi verið til umræðu á hinu háa Alþingi og sömuleiðis úti í þjóðfélaginu að heimila einkaaðilum að selja léttvín og bjór í verslunum. Þetta er eitt af þeim málum sem skoðanakannanir sýna að hafi verulegan meðbyr, að auka frelsi í slíkum viðskiptum.

Ég tek undir það með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þetta frumvarp og þær reglur sem það felur í sér getur ekki talist róttækt mál. Það má segja að í frumvarpinu felist ákveðin málamiðlun við þau sjónarmið sem fram hafa komið fyrir málinu og sömuleiðis sjónarmið þeirra sem hafa haft efasemdir um að rétt sé að fela einkaaðilum verslun með þessar vörur. Hin róttæka leið hefði verið að leggja til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins yrði einkavædd og að einkaaðilar hefðu alfarið og eingöngu með höndum sölu á víni, bjór og sterku áfengi. Þetta frumvarp gengur ekki út á neitt slíkt. Verði frumvarpið að lögum þá er ekkert sem segir að ÁTVR geti ekki starfað í óbreyttri mynd og boðið upp á óbreytt vöruúrval. Það er ekkert í frumvarpinu sem kemur í veg fyrir það. Frumvarpið gengur einfaldlega út á að heimila einkaaðilum jafnframt að versla með léttvín og bjór, en eftir sem áður verður einkaleyfi á sölu á sterku áfengi enn í höndum hins opinbera.

Það er rétt sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vék að í ræðu sinni, að verði frumvarpið að lögum mun það væntanlega leiða til þess að hið opinbera geti dregið úr þeirri þjónustu sem það veitir, þ.e. með því að fækka sölustöðum þegar einkaaðilar koma til sögunnar.

Eins og fram kemur í frumvarpinu, sem ég styð og er einn af flutningsmönnum að, sinna einkaaðilar þessari verslun nú þegar. Hv. þingmaður vék að því áðan að einkaaðilum væri víða treyst fyrir því að selja þessar vörur. Ég tel að sú reynsla sem fengist hefur af þeirri verslun ætti að vera lóð á vogarskálar okkar sem flytjum þetta frumvarp. Reynslan hefur sýnt að þeim aðilum hefur verið fullkomlega treystandi fyrir rekstrinum og á því ætti ekki að verða nein breyting. Ég sé ekki að aukið frelsi hvað þetta varðar ætti að leiða til hættu hvað varðar þessar vörur. Enda gerir frumvarpið ekki ráð fyrir því að menn slái slöku við í að bregðast við þeim vandamálum sem skapast af ofneyslu áfengis. Í þessu frumvarpi er ekkert sem mælir fyrir um að ungmenni eða börn geti nálgast þessar vörur fremur en núna. Flutningsmenn frumvarpsins virða öll þau sjónarmið sem fram hafa komið hvað þau atriði varðar.

Ég vil líka benda á að í þessu frumvarpi felast sóknarfæri fyrir svokallaða smákaupmenn, kaupmanninn á horninu sem rekur litla verslun og hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum þegar stóru viðskiptablokkirnar í viðskiptalífinu hafa sölsað undir sig stærri og stærri hluta markaðarins. Þessir aðilar hafa barist í bökkum í íslenskri verslun á síðustu árum vegna þess að þeir hafa átt undir högg að sækja í samkeppni við hina stóru og sterku. Með því að heimila þeim að selja léttvín og bjór skyldi maður ætla að samkeppnisstaða þeirra verði styrkari. Ég hef heyrt það í samtölum mínum við aðila sem reka slíkar verslanir að þeir líti löngunaraugum til þessa frumvarps. Þeir telja að verði það að lögum þá muni það styrkja starfsemi þeirra og verslun. Ég tel að þetta frumvarp feli í sér sóknarfæri fyrir kaupmanninn á horninu og smáverslun á Íslandi og er það vel.

Við Íslendingar höfum verið afskaplega aftarlega á merinni í verslun með léttvín og bjór. Við sem höfum búið erlendis við vitum að í flestum löndunum í kringum okkur, með fáeinum undantekningum, er verslunarmönnum heimilað að selja léttvín og bjór og reyndar sums staðar einnig sterkt vín. Það verður ekki séð að það frelsi sem þeir verslunareigendur njóta hafi lagt heilu þjóðirnar að velli eða að Íslendingar sem hafa flust búferlum til útlanda, hvort sem það er til að stunda nám eða atvinnu, hafi gengið af göflunum vegna þess að framboðið á þeim vörum væri meira en á Íslandi. Síður en svo. Það verður bara til annars konar menning í tengslum við þessar vörur, sem ég tel eftirsóknarverðari heldur en þá sem var á Íslandi þegar hömlurnar voru sem mestar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem maður vill sjá breytast hvað varðar neysluvenjur Íslendinga á þessum vörum en vissulega hefur orðið mikil breyting á þeim á síðustu árum.

Verði þetta frumvarp að lögum verður allt umhverfi í sölu og verslun á þessum vörum í betri takti við það sem gerist í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að það er athyglisvert og afar jákvætt að sjá, þegar maður lítur yfir listann yfir flutningsmenn frumvarpsins, að flutningsmenn koma úr öllum flokkum að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði undanskildu. Því má segja að ákveðin pólitísk samstaða ríki innan veggja Alþingis um að gera þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það gerist ekki á hverjum degi að þingmenn úr nánast öllum flokkum og fjölmargir þingmenn, úr nánast öllum stjórnmálaflokkum, sameinist um mál eins og þetta. Ég tel að umræðan um þetta mál á Alþingi sýni eða ætti að sýna að það er a.m.k. ekki veruleg andstaða við málið. Ekki ber á henni héðan úr ræðustól.

Ég er bjartsýnn á að umræðan á þinginu og hin mikla og breiða samstaða sem birtist í mismunandi flutningsmönnum frumvarpsins ætti að geta leitt til að þetta mál verði loksins afgreitt sem lög frá Alþingi.

Ég bendi jafnframt á að nýverið þá birtist könnun frá Gallup, gott ef það var ekki síðasta könnun þaðan, sem leiddi í ljós að 59% þjóðarinnar, ef ég man rétt, væru fylgjandi því að það skref sem lagt er til í frumvarpinu yrði stigið. Þannig má segja, eins og sumir stjórnmálamenn gera gjarnan, að þjóðin vilji að frumvarpið verði að lögum, a.m.k. miðað við þær kannanir sem fram hafa komið.

Allt þetta, sú samstaða sem hefur myndast meðal flutningsmanna nánast allra flokka á þinginu, umræðan um málið og vilji þjóðarinnar samkvæmt könnunum sem hafa verið gerðar, vekur vonir um að meðferð málsins á þinginu verði hröð og jákvæð. Þetta mál er ekki nýtt af nálinni og þarfnast ekki mjög nákvæmrar yfirlegu þeirra aðila sem munu veita umsagnir um málið þótt rétt sé að veita þeim heimildir til að tjá sig um það. En ég bind miklar vonir við að málið fái jákvæða og hraða afgreiðslu á þingi.